Aftökusveit tók hinn 67 ára gamla Brad Sigmon af lífi í gær í Suður-Karólínu. Þetta var í fyrsta sinn sem bandarískur fangi hefur verið tekinn af lífi með þessum hætti síðan árið 2010.
Sigmon var dæmdur til dauða fyrir að hafa barið foreldra fyrrverandi kærustu sinnar til dauða með hafnaboltakylfu árið 2001.
Sigmon var tekinn af lífi í Broad River-fangelsinu í Columbia-borg af þriggja manna aftökusveit klukkan 18:05 á staðartíma. Hann var úrskurðaður látinn þremur mínútum síðar.
Fjölmiðlafólk sem varð vitni að aftökunni fyrir aftan skothelt gler greindi frá því að Sigmon hefði verið klæddur í svartan íþróttagalla með lítið rautt skotmark úr pappír yfir hjartastað og hafi verið festur í stól.
Í síðustu yfirlýsingu sinni sem lögmaður hans las sagðist Sigmon vilja senda skilaboð kærleika og hvatti kristileg trúsystkini sín til að hjálpa við að binda enda á dauðarefsingar.
Hetta var síðan sett yfir höfuð Sigmon. Tveimur mínútum síðar skutu sjálfboðaliðar fangelsismálayfirvalda í Suður-Karólínu úr rifflum sínum í gegnum rauf í vegg sem var í um fimm metra fjarlægð.
Anna Dobbins, fjölmiðlakona hjá WYFF News 4-sjónvarpsstöðinni, sagði að skotunum hefði verið öllum hleypt af í einu og því hefði verið um „eitt hljóð“ að ræða.
„Hendur hans krepptust,“ sagði Dobbins. „Eitthvað í mitti hans hreyfðist – ég ætla ekki endilega að segja að það hafi verið andardrættir, ég veit það ekki alveg – en það var einhver hreyfing sem átti sér stað þar í tvær til þrjár sekúndur.“
„Þetta gerðist mjög hratt,“ sagði hún og bætti við: „Ég sá blóðslettu þegar byssukúlurnar hæfðu líkama hans. Það var ekki mikið magn, en það var sletta.“
Sigmon játaði að hafa myrt David og Gladys Larke árið 2001. Hann hafði biðlað til Hæstaréttar að fresta aftökunni á síðustu stundu en þeirri beiðni var hafnað.
Þá hafnaði Henry McMaster ríkisstjóri að beiðni Sigmon um náðun.
„Dauði Brad var hryllilegur og ofbeldisfullur,“ sagði lögmaður Sigmon í yfirlýsingu.
„Það er óskiljanlegt að árið 2025 taki Suður-Karólína einn af borgurum sínum af lífi á þennan blóðuga máta.“
Lögmaðurinn sagði að Sigmon hafi valið aftökusveitina eftir að hafa verið settur í „ómögulega“ stöðu, neyddur til að ákveða hvernig hann myndi deyja.
Hann sagði að rafmagnsstólinn myndi kveikja í honum lifandi og að bannvæn sprauta þýddi að hann þyrfti líklega að þjást í langan tíma, líkt og síðustu þrír mennirnir sem hafa verið teknir af lífi í ríkinu.
Stærstur hluti fanga dauðadeilda Bandaríkjanna hefur verið tekinn af lífi með sprautunni frá árinu 1976 er Hæstiréttur tók aftur upp dauðarefsinguna.