Mæður fallinna hermanna fá hakkavél að gjöf

Rússar hafa verið sakaðir um að kasta hermönnum sínum í …
Rússar hafa verið sakaðir um að kasta hermönnum sínum í „hakkavélina“. Gjöfin þykir því mörgum afar ósmekkleg. AFP/Mikhail Metzel

Menn úr flokki Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafa vakið hneyksli í heimalandi sínu er þeir færðu mæðrum fallinna hermanna hakkavél að gjöf í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna, en þar í landi er stundum talað um að yfirvöld sendi hermenn í „hakkavélina“.

Vængur Sam­einaðs Rúss­lands, flokks Pútíns, í bæ í Múrmansk í Norðvestur-Rússlandi birti myndir á Telegram af flokksmönnum færa mæðrum rússneskra hermanna sem hafa fallið í valinn í Úkraínu hakkavél að gjöf.

Við færsluna þakkar flokkurinn mæðrum landsins fyrir „sálarstyrkinn og ástina sem þið lögðuð í að ala upp syni ykkar“.

Flokkurinn sagði að gjafirnar væru að frumkvæði kvennavængs flokksins.

Við færsluna þakkar flokkurinn mæðrum landsins fyrir „sálarstyrkinn og ástina …
Við færsluna þakkar flokkurinn mæðrum landsins fyrir „sálarstyrkinn og ástina sem þið lögðuð í að ala upp syni ykkar“. Telegram/Sameinað Rússland

Að kasta mönnum í „hakkavélina“

Sumir hafa gagnrýnt frumkvæðið á netinu og kallað það „skömmustulegt“ og „óviðeigandi“.

Rússar hafa nefnilega verið sakaðir um að kasta hermönnum sínum í „hakkavélina“ (r. mjasorúbka). Þar er átt við um herbragð þar sem smáir hópar fótgönguliða eru sendir í sókn hver á fætur öðrum – þrátt fyrir mikla hættu á mannfalli – með það að markmiði að þreyta og yfirbuga Úkraínumenn.

Móðir nokkur tekur við blómvendi og kjötkvörn, eða hakkavél, frá …
Móðir nokkur tekur við blómvendi og kjötkvörn, eða hakkavél, frá flokknum Sameinað Rússland. Telegram/Sameinað Rússland

Armur flokksins, sem er nánar tiltekið í bænum Poljarníje Sorí, hefur þó svarað fyrir sig og segir að gagnrýnendur geri „kaldranalega og storkandi túlkun“ á gjörningnum.

Maxim Téngajev bæjarstjóri, sem tók þátt í gjörningnum, sagði að hakkavélar hafi í upphafi ekki átt að vera meðal gjafa en að „ein kona bað um það, og við gátum auðvitað ekki sagt nei“.

Flokkurinn birti svo myndskeið þar sem ein móðir þiggur gjöfina vandræðalega og staðfestir aðspurð að hún hafi einmitt beðið um slíkt.

Fjöldi látinna óljós

Rússar hafa enn ekki gefið út tölur um fjölda látinna rússneskra hermanna í Úkraínu en fjölmiðlar telja hann vera í mörgum tugum þúsunda.

Rússneska vefsíðan Mediazona og Rússlandsdeild BBC sögðu í febrúar að þau hefðu fundið deili á einhverjum 91 þúsund rússneskum hermönnum en að raunverulegur fjöldi væri sennilega „talsvert hærri“.

Undir lok síðasta árs sagði Lloyd Austin, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að um 700 þúsund rússneskir hermenn væru ýmist dánir eða særðir.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í febrúar að fleiri en 46 þúsund rússneskir hermenn væru látnir og 380 þúsund særðir. Fjölmiðlar telja þó sumir að fjöldi látinna sé á milli 50 og 100 þúsund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert