Ríkisstjórn í fæðingu: Vilja efla landamæraeftirlit

Friedrich Merz (t.v.), formaður Kristilegra demókrata, og Lars Klingbeil, einn …
Friedrich Merz (t.v.), formaður Kristilegra demókrata, og Lars Klingbeil, einn leiðtoga Jafnaðarmanna. AFP

Friedrich Merz, tilvonandi kanslari Þýskalands, segir Kristilega demókrata (CDU) og Jafnaðarmenn hafa náð saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Flokkarnir sammælast í þremur helstu málefnum; hælisleitendamálum, efnahagsmálum og vinnumarkaðsmálum.

Merz, sem er formaður íhaldsflokksins CDU, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í dag en viðræðum er þó ekki lokið.

Búist er við því að Merz verði næsti kanslari þar sem CDU bar sigur úr býtum í þingkosningum í febrúar en fráfarandi kanslari, Olaf Scholz, er úr röðum jafnaðarmanna.

Útlendingar í brennidepli kosninganna

Merz sagði á blaðamannafundi í dag að flokkarnir hygðust draga úr fjölda innflytjenda sem kæmi til landsins og að Þýskaland myndi „stórefla landamæraeftirlit“ á fyrsta starfsdegi ríkisstjórnarinnar.

Óskráðum innflytjendum, þar á meðal flóttamönnum, yrði vísað frá á landamærunum.

Heitar umræður sköpuðust um útlendingamál í kosningabaráttunni í febrúar og hrina árása þar sem bílum var ekið í hóp gangandi vegfarenda bætti olíu á bálið, þar sem útlendingum var kennt um.

Þetta varð til þess að auka fylgi róttæka hægri öfgaflokksins Alternative für Deutschland (AfD) en flokkurinn hlaut um 20% atkvæða. En Merz, sem og framá­menn í öðrum flokk­um, hét því að halda AfD frá völd­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert