Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, telur að ríkið eigi að kanna kjarnorku „möguleika“.
„Við verðum að vera meðvituð um að Pólland verður að ná í nútímalegustu möguleikana, einnig tengda kjarnorkuvopnum og óhefðbundnum nútímavopnum,“ sagði Tusk í pólska þinginu í gær.
Þá sagðist Tusk styðja við að Pólverjar drægju sig úr Ottowa-samþykktinni sem bannar notkun jarðsprengna, sem og hugsanlega Dyflinnarsáttmálunum sem bannar notkun klasasprengna.
The Guardian greinir frá því að að minnsta kosti tvö önnur ríki innan Nató, Finnland og Litháen, hafi íhugað að draga sig úr Ottowa-samþykktinni. Þau eiga einnig landamæri að Rússlandi, líkt og Pólland.
„Við skulum horfast í augu við stöðuna. Þetta er ekki eitthvað sniðugt, ekki þægilegt. Við vitum það vel,“ sagði Tusk.
„Vandamálið er í umhverfi okkar, við þá sem við óttumst, eða þá sem standa í stríðsrekstri.“
Tusk greindi einnig frá því í gær að unnið væri að áætlun um herþjálfun allra fullorðinna karlmanna í ríkinu.
Þá greindi Andrzej Duda, forseti Póllands, frá því að hann ætlaði að leggja fram breytingu á stjórnarskránni sem skyldi ríkið til að verja að minnsta kosti 4% af vergri landsframleiðslu í varnarmál á ári hverju.
Pólland eyðir nú þegar hærra hlutfalli landsframleiðslu en nokkuð annað ríki innan Nató í varnarmál, þar á meðal Bandaríkin.
Á síðasta ári voru varnarmálaútgjöldin 4,1% landsframleiðslu, samkvæmt mati Nató, og stefnir í að hlutfallið verði 4,7% í ár.