Læknismeðferð Frans páfans við lungnabólgu er að skila árangri. Páfinn þakkaði læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sem hefur hlúð að honum eftir að hann var lagður inn á spítala fyrir rúmum þremur vikum.
Þetta kom fram í skriflegri tilkynningu sem kom í stað vikulegrar Angelusar-bænar páfans.
Ástand páfans hefur verið tvísýnt frá því að hann var lagður inn á spítala fyrir rúmum þremur vikum. Páfinn hefur jafnvel verið talinn í lífshættu.
Nú er hann hins vegar hitalaus og á batavegi, læknar hans vilja þó ekki fagna of snemma og vilja sjá læknismeðferðina skila frekari árangri.
Löng venja er fyrir því að páfinn ávarpi mannhafið á Péturstorgi frá glugga sínum á hverjum sunnudegi með Angelusar-bæn sinni. Þetta er í fjórða sinn í röð sem páfinn forfallast en fólk sem safnast hafði á Péturstorgi í dag segir að viðveru páfans sé sárt saknað.
„Hann er frábær maður sem hefur gefið svo mikið af sér. Við biðjum öll fyrir því að hann snúi aftur í gluggann sinn sem fyrst,“ segir Diana Desiderio sem var gestur á Péturstorgi í dag.