Bandaríkin segja Póllandi að þakka fyrir sig

Marco Rubio heilsar hér Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi …
Marco Rubio heilsar hér Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi þeirra í Ríad í Sádi-Arabíu í febrúar. AFP

Marco Ru­bio, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, seg­ir eng­an hafa hótað að loka fyr­ir teng­ingu Úkraínu við gervi­hnatta­net­kerfið Starlink. Kerfið hef­ur reynst úkraínska hern­um dýr­mætt und­an­far­in ár þar sem hann berst við inn­rás­ar­her Rússa.

Þetta seg­ir Ru­bio í til­efni af skrif­um pólska ut­an­rík­is­ráðherr­ans Radoslaws Si­korski fyrr í dag, sem sjálf­ur lagði út af skrif­um viðskipta­jöf­urs­ins Elons Musk.

Musk kvaðst hafa skorað á Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta að eiga við sig slags­mál um ör­lög Úkraínu. Bætti hann við að Starlink-kerfið sitt – en það er rekið af SpaceX í eigu Musks – væri hryggj­ar­stykkið í úkraínska hern­um.

„Öll fremsta víg­lína þeirra hryndi ef ég slökkti á því,“ skrifaði Musk á miðil sinn X, sem hann keypti árið 2022.

Full­yrti Musk að hon­um ofbyði ára­langt blóðbað í þrá­tefli sem hann sagði Úkraínu­menn myndu á end­an­um tapa.

Pól­land borg­ar fyr­ir Starlink

Um­mæli Musks vöktu viðbrögð í Póllandi.

Si­korski benti á að Starlink-teng­ing Úkraínu væri fjár­mögnuð af pólsk­um stjórn­völd­um, sem borguðu fyr­ir það um 50 millj­ón­ir banda­ríkja­dala á ári.

„Burt­séð frá siðferðinu í því að hóta fórn­ar­lambi árás­ar­inn­ar, ef SpaceX reyn­ist ótrygg þjón­usta þá mun­um við neyðast til að leita að öðrum þjón­ustu­veit­end­um.“

Bara til­bún­ing­ur

Koll­egi Si­korskis hinum meg­in Atlants­hafs­ins hef­ur sitt um þetta að segja.

Í tísti nú fyr­ir skemmstu seg­ir hann þetta aðeins til­bún­ing hjá Si­korski.

„Eng­inn hef­ur hótað því að af­tengja Úkraínu við Starlink,“ skrif­ar hann.

„Og segðu takk fyr­ir því að án Starlink þá hefði Úkraína tapað þessu stríði fyr­ir löngu og Rúss­ar væru á landa­mær­un­um við Pól­land ein­mitt núna.“

Upp­fært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert