Bandaríkin segja Póllandi að þakka fyrir sig

Marco Rubio heilsar hér Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi …
Marco Rubio heilsar hér Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, á fundi þeirra í Ríad í Sádi-Arabíu í febrúar. AFP

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir engan hafa hótað að loka fyrir tengingu Úkraínu við gervihnattanetkerfið Starlink. Kerfið hefur reynst úkraínska hernum dýrmætt undanfarin ár þar sem hann berst við innrásarher Rússa.

Þetta segir Rubio í tilefni af skrifum pólska utanríkisráðherrans Radoslaws Sikorski fyrr í dag, sem sjálfur lagði út af skrifum viðskiptajöfursins Elons Musk.

Musk kvaðst hafa skorað á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að eiga við sig slagsmál um örlög Úkraínu. Bætti hann við að Starlink-kerfið sitt – en það er rekið af SpaceX í eigu Musks – væri hryggjarstykkið í úkraínska hernum.

„Öll fremsta víglína þeirra hryndi ef ég slökkti á því,“ skrifaði Musk á miðil sinn X, sem hann keypti árið 2022.

Fullyrti Musk að honum ofbyði áralangt blóðbað í þrátefli sem hann sagði Úkraínumenn myndu á endanum tapa.

Pólland borgar fyrir Starlink

Ummæli Musks vöktu viðbrögð í Póllandi.

Sikorski benti á að Starlink-tenging Úkraínu væri fjármögnuð af pólskum stjórnvöldum, sem borguðu fyrir það um 50 milljónir bandaríkjadala á ári.

„Burtséð frá siðferðinu í því að hóta fórnarlambi árásarinnar, ef SpaceX reynist ótrygg þjónusta þá munum við neyðast til að leita að öðrum þjónustuveitendum.“

Bara tilbúningur

Kollegi Sikorskis hinum megin Atlantshafsins hefur sitt um þetta að segja.

Í tísti nú fyrir skemmstu segir hann þetta aðeins tilbúning hjá Sikorski.

„Enginn hefur hótað því að aftengja Úkraínu við Starlink,“ skrifar hann.

„Og segðu takk fyrir því að án Starlink þá hefði Úkraína tapað þessu stríði fyrir löngu og Rússar væru á landamærunum við Pólland einmitt núna.“

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert