Adam Boehler, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í gíslamálum, sem átti fordæmalausan beinan fund við fulltrúa Hamas nú í vikunni segir að fundurinn hafi skilað miklu og að samkomulag um að gíslum verði sleppt úr haldi gæti verið náð á næstu vikum.
Boehler, sem er af gyðingaættum, sagði að það hafi verið undarlegt að sitja augliti til auglitis við leiðtoga Hamas-samtakanna en útilokaði ekki frekari fundarhöld í samtali við CNN. Hann segist hafa reynt að átta sig á því að um manneskjur væri að ræða en það hafi verið erfitt í ljósi þeirra voðaverka sem þeir bæru ábyrgð á.
Ísrael og Hamas höfðu samið um vopnahlé en ekki er enn ljóst hvert framhaldið verður enda hefur gengið brösuglega að sleppa gíslum í haldi Hamas. Trump hótaði fyrr í vikunni frekari eyðileggingu á Gasa-ströndinni ef öllum gíslum verður ekki sleppt.
Boehler segist skilja það að stjórnvöld í Ísrael skuli vera ósátt með það að Bandaríkin fundi með Hamas. Bandaríkin séu þó sínir eigin herrar, ekki fulltrúar Ísrael.
Boehler sagði að næstu skref hjá honum væru að fara til Sýrlands til þess að reyna að komast að því hvort bandaríski blaðamaðurinn Austin Tice væri enn á lífi. Tice hefur verið í haldi í Sýrlandi frá árinu 2012.
„Ef hann er á lífi þá ætla ég mér að koma honum heim til sín. Ef hann er látinn þá ætla ég að grafa hann upp og koma honum heim til móður sinnar.“