Philippe Baptiste, háskólamálaráðherra Frakklands, hefur skrifað bréf til helstu rannsóknarstofnana Frakklands til þess að hvetja þær til að taka vel á móti bandarískum vísindamönnum sem yfirgefa Bandaríkin.
Frá embættistöku Donald Trump hefur stjórn hans skorið verulega niður í opinberum framlögum til vísinda auk þess sem fjölmargir opinberir starfsmenn sem unnu við rannsóknir hafa misst vinnuna, sér í lagi þeir sem unnu að rannsóknum tengdum loftslags- og heilbrigðisvísindum.
Í bréfi Baptiste segir hann að virtir bandarískir vísindamenn íhugi nú framtíð sína í Bandaríkjunum og að Frakkar eigi að taka við þeim opnum örmum. Fyrr í vikunni hóf Aix-Marseille-háskólinn í Frakklandi nýtt verkefni sem miðar að því að taka við bandarískum vísindamönnum sem vinna að loftslagsvísindum.
Í vikunni hafa vísindamenn mótmælt víðs vegar í Bandaríkjunum en í frönsku borginni Toulouse sýndu franskir vísindamenn bandarískum kollegum sínum samstöðu með því að halda athöfn þeim til heiðurs.