„Hafðu hljótt, litli maður.“
Þannig svarar viðskiptajöfurinn Elon Musk pólska utanríkisráðherranum Radoslaw Sikorski, sem gert hafði athugasemd við ummæli Musks sjálfs fyrr í dag.
Musk kvaðst hafa skorað á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að eiga við sig slagsmál um örlög Úkraínu. Bætti hann við að Starlink-kerfið sitt – sem er rekið af SpaceX í eigu Musks – væri hryggjarstykkið í úkraínska hernum.
„Öll fremsta víglína þeirra hryndi ef ég slökkti á því,“ skrifaði Musk.
Sikorski benti á að Starlink-tenging Úkraínu væri fjármögnuð af pólskum stjórnvöldum, sem borguðu fyrir það um 50 milljónir bandaríkjadala á ári.
„Burtséð frá siðferðinu í því að hóta fórnarlambi árásarinnar, ef SpaceX reynist ótrygg þjónusta þá munum við neyðast til að leita að öðrum þjónustuveitendum,“ skrifaði Sikorski, eins og fjallað var um nú síðdegis.
Musk svarar Sikorski eins og áður sagði og bætir við að Pólland borgi ekki nema lítið brot af kostnaðinum við Starlink.
„Og það getur ekkert komið í staðinn fyrir Starlink.“
Be quiet, small man.
— Elon Musk (@elonmusk) March 9, 2025
You pay a tiny fraction of the cost.
And there is no substitute for Starlink.