Sjóherir Írana, Rússa og Kínverja munu nú í vikunni hefja sameiginlegar hernaðaræfingar við strendur Íran; þetta er gert í því skyni að efla samstöðu gegn þeirri ógn sem ríkin telja að stafi af Bandaríkjunum.
Samkvæmt fréttamiðlum í Íran er ætlunin að æfingar hefjist á þriðjudaginn við suðausturströnd Íran en ekki er víst hve lengi æfingar munu standa yfir. Ríkin þrjú munu öll senda mikið magn af stórum herskipum til æfinganna.
Bandamenn þjóðanna munu vera viðstaddir til þess að fylgjast með æfingunum en búist er við fulltrúum frá til að mynda Suður-Afríku, Kasakstan og Srí Lanka.
Íranski herinn hefur seinustu misseri verið með mikinn viðbúnað á þeim slóðum þar sem æfingarnar munu fara fram.