Eli Cohen, orkumálaráðherra Ísraels, greindi frá því í dag að hann hefði gefið fyrirmæli um að hætta að veita raforku til Gasa.
Tilkynningin kemur viku eftir að Ísraelar lokuðu fyrir alla aðstoð inn á Gasa.
Þessi aðgerð minnir um margt á aðgerð Ísraels á fyrstu dögum stríðsins, þegar tilkynnt var um „umsátur“ sem fól í sér að stöðvun á raforku til Gasa.
„Við munum nota öll þau tæki sem við höfum til koma aftur gíslunum og tryggja að Hamas sé ekki lengur í Gasa daginn eftir,“ sagði Cohen í myndbandsyfirlýsingu.
Síðustu helgi tilkynntu Ísraelar að þeir væru að stöðva flutning hjálpargagna og birgða til Gasa þar til palestínskir vígamenn samþykktu skilmála þeirra um framlengingu vopnahlés.
Hamas sakaði Ísrael í gær um að „fremja stríðsglæpi“ með því að stöðva aðstoð og sagði að aðgerðin hefði einnig áhrif á ísraelska gísla sem enn væru í haldi þar.
Af þeim 251 sem var tekinn til fanga í árás Hamas á Ísrael 7. október 2023 eru 58 enn á palestínsku yfirráðasvæðinu, þar af 34 sem ísraelski herinn hefur staðfest að séu látnir.
Á mánudag varaði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, Hamas við afleiðingum sem það „getur ekki ímyndað sér“ ef þeir sleppa ekki gíslunum.