Evrópusambandið lítur enn á Bandaríkin sem náinn bandamann sinn þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi í sífellu harðlega gagnrýnt sambandið síðastliðnar vikur. Þetta sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, á blaðamannafundi í dag.
Von der Leyen var spurð á fundinum hvort tími væri kominn til þess að breyta sambandi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna líkt og Evrópusambandið hefur áður gert gagnvart Kína.
„Ég ætla að vera algjörlega skýr með það að svarið við þessu er alveg skýrt nei. Samband okkar við Bandaríkin er gjörólíkt því sambandi sem við eigum við Kína. Að sjálfsögðu eru Bandaríkin bandamenn okkar,“ sagði von der Leyen.
Von der Leyen hélt svo áfram og sagði að þrátt fyrir að það væri margt sem sundraði Bandaríkjunum og Evrópusambandinu þessa stundina væri mikilvægt að horfa á þá hagsmuni sem þessir aðilar eiga sameiginlega, það væru afar ríkir hagsmunir.
Sú stefnubreyting sem að Bandaríkin hafa tekið upp á síðkastið hlýtur að verða til þess að Evrópa vakni að sögn von der Leyen. Hún segir að nú sé tíminn fyrir Evrópu til þess að styrkja sig í varnarmálum og auka sjálfstæði sitt í þeim efnum.
Evrópusambandsríkin samþykktu fyrr í vikunni að í sameiningu myndu þau auka framlög sín til varnarmála um átta hundruð milljarða evra. Trump hefur sett pressu á það að Evrópa auki framlag sitt til varnarmála.