Lofa að rannsaka dráp á hundruðum borgara

Öryggissveitir hliðhollar stjórnvöldum í Damaskus stilla sér upp í dag.
Öryggissveitir hliðhollar stjórnvöldum í Damaskus stilla sér upp í dag. Ljósmynd/Afp

Ríf­lega 750 al­menn­ir borg­ar­ar eru sagðir hafa fallið í árás­um ör­ygg­is­sveita stjórn­ar­hers­ins í Sýr­landi, flest­ir í borg­un­um Jableh og Ban­iyas. Tala lát­inna í átök­um sem hóf­ust á fimmtu­dag er sögð ríf­lega 1300 manns.

Kon­ur og börn eru meðal al­mennra borg­ara sem hafa fallið. Eru ör­ygg­is­sveit­ir stjórn­ar­hers­ins sagðar hafa farið með hefnd­ar­hug til borg­anna eft­ir að á þriðja hundrað meðlima ör­ygg­is­sveit­anna voru strá­felld­ir í laun­sát­ursárás byssu­sveita hliðholl­um Bash­ar al-Assad, fyrr­ver­andi for­seta á fimmtu­dag.

Flest­ir hinna föllnu borg­ara eru úr röðum ala­víta sem er trú­arminni­hluta­hóp­ur í borg­un­um en Bash­ar al-Assad er ala­víti. 

Bresk og þýsk stjórn­völd sendu frá sér yf­ir­lýs­ing­ar þar sem þess var kraf­ist að rann­sókn færi fram á dauðsföll­um al­mennra borg­ara.

Í kvöld gáfu stjórn­völd í Sýr­landi það út að sjö manna nefnd verði sett á lagg­irn­ar til að rann­saka of­beldi í garð al­mennra borg­ara og því lofað að draga þá sem framið hafa voðaverk gegn þeim til ábyrgðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert