Öryggisþjónustan skaut mann nærri Hvíta húsinu

Mynd úr safni af Hvíta húsinu.
Mynd úr safni af Hvíta húsinu. AFP

Bandaríska öryggisþjónustan skaut mann nærri Hvíta húsinu í morgun.

ABC News greinir frá því að maðurinn hafi verið vopnaður skotvopni. Hann var skotinn af öryggisþjónustunni og er slasaður.

Í tilkynningu öryggisþjónustunnar sagði að lögregla í Washington-borg hefði haft samband við öryggisþjónustuna vegna mannsins sem var í sjálfsvígshugleiðingum.

Sagði að maðurinn hefði ferðast frá Indíana til Washington.

Liðsmenn öryggisþjónustunnar fundu bíl mannsins í borginni um miðnætti. Bifreiðinni var lagt við Eisenhower-bygginguna sem er við hliðina á Hvíta húsinu.

Þá sagði í tilkynningunni að maðurinn sæist gangandi nærri bílnum.

Er viðbragðsaðilar nálguðust hann tók maðurinn upp skotvopn og hleypti af, sem leiddi til þess að hann var skotinn.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús og er ekki vitað um ástand hans.

Liðsmenn öryggisþjónustunnar slösuðust ekki við atvikið.

Málið er nú til rannsóknar.

Fréttin hefur verið uppfærð.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert