Hópur sem er hliðhollur Palestínu unnu skemmdarverk á golfvelli Donald Trump Bandaríkjaforseta í Skotlandi.
Hópur sem kallar sig Palestine Action birti myndir á samfélagsmiðlum sem sýna hvernig rauðri málningu hefur verið slett á byggingu á Turnberry–gólfvellinum.
Þá var orðunum „Gasa er ekki til sölu“ spreyjað með hvítri málningu á gras golfvallarins og á öðrum stað voru skemmdarverk unnin á grasinu.
Á annarri mynd sáust skemmdarverk sem höfðu verið gerð á ljósastaur.
BBC greinir frá því að talsmaður golfvallarins sagði verkið „barnalegt og glæpsamlegt“.
Skoska lögreglan sagði að tilkynning hafi borist um skemmdarverkin síðdegis í gær og staðfesti að málið sé til rannsóknar.
Trump var gagnrýndur fyrir að leggja ítrekað til að bola öllum Palestínumönnum út af Gasa.
Hann lagði til að kaupa Gasaströndina og byggja hana upp í ferðamannastað.
„Bandaríkin munu taka yfir Gasaströnd og gera hana upp,“ sagði Trump á blaðamannafundi með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í Hvíta húsinu í febrúar.
Netanjahú sagði að það þyrfti að skoða hugmyndina.
Þá hefur Trump áður sagt að nágrannaríki Palestínu ættu að taka við Palestínumönnum. Tillaga sem var alfarið hafnað af Arabaríkjunum.
Palestine Action er hópur sem segist vinna að því að leysa í sundur samsekt Breta í aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna.
Í yfirlýsingu sagðist hópurinn hafna meðferð Trumps á Gasa.
„Til þess að það sé skýrt þá höfum við sýnt honum að eign hans er ekki óhult andspyrnuverkum. Við munum halda áfram að grípa til aðgerða gegn nýlendustefnu Bandaríkjanna og Ísraels í heimalandi Palestínumanna.“
Talsmaður golfvallarins sagði að starfsmenn Turnberry myndu sjá til þess að skemmdarverkin hefðu ekki áhrif á starfsemi vallarins.
„Turnberry er þjóðargersemi og mun halda áfram að vera einn af bestu gólfvöllum heims,“ sagði í yfirlýsingu talsmannsins.