„Verðum að varðveita einingu þjóðarinnar“

Ahmed al-Sharaa, forseti Sýrlands.
Ahmed al-Sharaa, forseti Sýrlands. AFP

Ahmed al-Sharaa, forseti Sýrlands, kallaði eftir samstöðu og friði í ríkinu eftir að fleiri en þúsund manns voru drepnir við strendur Sýrlands í mestu átökum síðan Bashar al-Assad var steypt af stóli. 

Ofbeldið braust út á fimmtudag á milli nýrra öryggissveita og stuðningsmanna fyrri ríkisstjórnar á svæði þar sem Alavítar eru í meirihluta. Assad var Alavíti og var trúarhópurinn áberandi í stjórn hans. 

Átökin hafa stigmagnast síðustu daga og eru nú mesta áskorun nýrra stjórnvalda sem tóku við eftir að Assad var steypt af stóli í desember. 

„Við verðum að varðveita einingu þjóðarinnar og borgaralegan frið, að vilja Guðs, eins og hægt er svo við getum búið saman í þessu landi,“ sagði Sharaa forseti.

Sýrlenska mannréttindavaktin greindi frá því að 745 Alavítar voru teknir af lífi í héruðunum Latakia og Tatus. 

Þá létust 125 liðsmenn öryggissveitanna og 148 uppreisnarmenn sem styðja Assad.

Sýrlenskir fjölmiðlar greina frá því að liðsauki öryggissveitanna hafi verið sendur til héraðanna. 

Sýrlenskir fjölmiðlar greina frá því að liðsauki öryggissveitanna hafi verið …
Sýrlenskir fjölmiðlar greina frá því að liðsauki öryggissveitanna hafi verið sendur til héraðanna. AFP

Ráðist inn á heimili

Samir Haidar, 67 ára gamall íbúi í Baniyas, sagði við AFP-fréttaveituna að tveir bræður hans og frænka hafi verið drepin af „vopnuðum hópum“ er þeir réðust inn á heimili fólks. Þá sagði hann að margir þeirra hafi verið útlendingar. 

Hassan Abdul Ghani, talsmaður varnarmálaráðuneytis Sýrlands, sagði öryggissveitirnar hafa „komið á stjórn“ á svæðum þar sem stuðningsmenn Assad gerðu árásir. 

„Það er stranglega bannað að nálgast eða ráðast á einhvern inni á heimilum þeirra,“ sagði talsmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert