Danmörk er tilbúin að senda friðarliða til Úkraínu ef friðarsamkomulag næst milli Úkraínu og Rússlands. Það eru aftur á móti engin raunhæf áform á borðinu að svo stöddu, að sögn varnarmálaráðherra landsins.
Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra og Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra tilkynntu þetta í kjölfar fundar með utanríkisnefnd þjóðþingsins en þar gerðu þeir nefndinni kunngjört um afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og hlutu stuðning þingsins.
„Það er mikilvægt að við í Evrópu sendum merki bæði til Pútíns og Washington,“ sagði Rasmussen, að því er DR greinir frá.
„Það er það sem við erum að gera í dag. Komi svo til, héðan í frá, að viðveru Evrópu er óskað til að landa vopnahlé eða friðarsamning, þá er Danmörk viljug í þeim efnum.“
Í kjölfar hitafundar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og J.D. Vance varaforseta með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta hefur samkvæmisdans hafist í Evrópu.
Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, kallaði hina ýmsu Evrópuleiðtoga á sinn fund til að ræða málefni Úkraínu, þar sem svo virtist sem ekki væri lengur jafn auðvelt að reiða sig á stuðing Bandaríkjamanna.
Bretar og Frakkar hyggjast nú vinna að friðaráætlun með Úkraínumönnum, eftir að Bandaríkjamenn hófu viðræður við Rússa án aðkomu Úkraínumanna.
Hver Evrópuþjóð á fætur annarri vígbýr sig nú. Danir hafa stóraukið framlög til varnarmála – einnig vegna áforma Trumps á Grænlandi – og Pólverjar hyggjast láta alla fullorðna karlmenn fara í herþjálfun.
Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherrann segist ekki ímynda sér að Nató taki af skarið og sendi friðarliða, heldur býst hann við að fjöldi einstakra landa ákveði nú að sýna Úkraínu stuðning til að tryggja henni varnagla í hugsanlegum friðarsamningum – rétt eins og Danmörk geri nú.
Árásum Rússa í Úkraínu hefur fjölgað á síðustu dögum eftir að Bandaríkin frystu hernaðaraðstoð til Úkraínu og hættu að deila leyniþjónustugögnum með landinu.