Skipstjórinn Nigel Bassett segir til rannsóknar hvort árekstur skipanna tveggja við Austur-Jórvíkurskíri á Englandi í dag hafi orðið af völdum véla eða starfsmanna.
„Í dag hefur eitthvað farið úrskeiðis,“ segir hann í samtali við breska ríkisútvarpið.
Skip séu hönnuð til að standast högg og séu öll „tvíhúðuð“, sem þýði að tvö lög séu á milli bols og farms á skipinu. Þannig sé skipið hannað til að standast rof á farmrýminu. Í dag virðast bæði innri og ytri skrokkurinn þó hafa orðið fyrir skemmdum.
Tólf klukkustundir eru liðnar síðan slysið varð og skipin brenna enn.
Heidi Alexander, samgönguráðherra Bretlands, segist „mjög þakklát“ strandgæslunni og öðrum viðbragðsaðilum, vegna slyssins.
„Þeir voru fljótir á vettvang og hafa hjálpað til við að bjarga þeim sem voru í bráðri hættu, og ég veit að þeir munu halda áfram að vinna sleitulaust næstu daga,“ segir hún í yfirlýsingu.
„Mér er efst í huga allir þeir sem hlut eiga að máli, sérstaklega fjölskylda hins týnda skipverja,“ segir Alexander.
Frumrannsókn á vegum rannsóknardeildar sjóslysa (MAIB) sé hafin og hún muni vinna náið með rannsóknaraðilum við mat á aðgerðum til að sporna sem mest gegn mengun næstu daga.
Greenpeace-samtökin hafa miklar áhyggjur af losun eiturefna í kjölfar áreksturs skipanna en eins og fjallað var um fyrr í dag var fraktskipið Solong með 15 gáma af natríumblásýrusalti um borð þegar það skall á olíuflutningaskipið Stena Immaculate, sem var við akkeri um 16 kílómetra undan strönd Hull.
„Er upplýsingar berast um hvað skipin voru með um borð verðum við enn áhyggjufyllri um margvíslega hættu sem steðjað getur að lífríki sjávar af losun þessara efna,“ segir Paul Johnston, vísindamaður hjá Greenpeace Research Laboratories við Exeter-háskólann.
„Þotueldsneytið sem barst í vatnið nálægt uppeldisstöð hafhnísa er eitrað fiskum og öðrum sjávardýrum,“ bætir hann við.
Árekstur skipanna hefur valdið mikilli hættu á mengun undan norðausturströnd Englands.
Viðskiptaupplýsingaþjónustan Lloyd's List Intelligence segist telja að Stena Immaculate sé með um 220.000 tunnur af þotueldsneyti um borð.
„Gámaskipið var með óþekkt magn af áfengi og 15 ílát af natríumblásýrusalti,“ segir í tilkynningu Lloyd's List.
Tom Webb, dósent í sjávarvistfræði og náttúruvernd við háskólann í Sheffield, segir svæðið vera þekkt fyrir ríkt dýralíf, þar á meðal vatna– og vaðfugla.
„Efnamengun frá atvikum af þessu tagi getur haft bein áhrif á fugla og hún getur líka haft langvarandi áhrif á fæðuvefi sjávar, sem styðja þá,“ segir Webb.