Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eru báðir komnir til Sádi-Arabíu þar sem þeir munu á morgun eiga fund um mögulegt vopnahlé á innrásarstríði Rússlands í Úkraínu. Úkraínumenn eru sagðir tilbúnir að hætta hernaði í lofti og á sjó.
„Við erum með tillögu að vopnahléi í lofti og vopnahléi á sjó,“ sagði úkraínskur embættismaður í samtali við AFP gegn nafnleynd.
Rubio sagði í samtali við blaðamenn í dag að tillagan gæti náð árangri.
„Ég er ekki að segja að það sé nóg, en þetta er dæmi um tilslökun sem þú þarft að sjá til þess að binda enda á stríðið,“ sagði Rubio.
Um er að ræða fyrsta fundinn hjá þjóðunum tveimur síðan að Selenskí og Trump tókust á í Hvíta húsinu undir lok febrúar.
Þar var Selenskí rekinn á dyr án þess að hann hefði undirritað samning við Bandaríkin um að deila jarðefnaauðlindum Úkraínu.
Í kjölfar fundarins frysti Donald Trump hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til Úkraínu og hætti að deila tímabundið njósnaupplýsingum með úkraínskum stjórnvöldum.
Rubio kvaðst vonast til þess að hægt væri „leysa“ málið varðandi frystingu á hernaðaraðstoð en það væri lykilatriði hvernig fundurinn á morgun færi.
Breska dagblaðið Financial Times hefur eftir heimildarmanni sínum að tillaga Úkraínu sé að hluta til miðuð að því að sannfæra stjórnvöld í Bandaríkjunum um að hefja á ný hernaðaraðstoð.
Selenskí hefur í kjölfar fundarins í Hvíta húsinu sagst reiðubúinn til undirritunar samningsins um jarðefnaauðlindir hvenær sem er og að hann sé tilbúinn að vinna með Trump til að koma á varanlegum friði í Úkraínu.
Áður en Selenskí hélt til Sádi-Arabíu ítrekaði hann þó að Rússar væru eina ástæðan fyrir því að ekki væri kominn friður.
„Úkraína hefur sóst eftir friði frá fyrstu sekúndu þessa stríðs og við höfum alltaf sagt að að eina ástæðan fyrir því að stríðið er enn í gangi er vegna Rússlands,“ skrifaði Selenskí í yfirlýsingu í dag.
Í kjölfar fundarins í Hvíta húsinu óttuðust margir að Trump væri hliðhollari Rússum en Úkraínumönnum.
Það róaði samt einhverja þegar hann hótaði Rússum frekari refsiaðgerðum og tollum í síðustu viku eftir umfangsmiklar árásir Rússa á Úkraínu.
Steve Witkoff, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, segir að það verði að koma í ljós hvort að Selenskí undirriti samning um jarðefnaauðlindir á morgun.