Elon Musk segir að bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Mark Kelly sé „svikari“ vegna ferðar hans til Úkraínu þar sem hann ítrekaði mikilvægi þess að tryggja varnir Úkraínu gegn innrásarher Rússlands.
Kelly birti færslu á X, miðli sem Musk keypti árið 2022, þar sem hann vakti athygli á ferð sinni til Úkraínu.
Benti hann meðal annars á það að Úkraína hefði náð að verja sig í þrjú ár, meðal annars vegna stuðnings Bandaríkjanna og annarra bandamanna.
„Bandaríkin eru sterkasta og ríkasta land í heimi. Við komumst ekki þangað með því að vera eineltisseggir eins og Pútín, við komumst þangað með því að leiða og fá bandamenn okkar með. Þess vegna mun ég halda áfram að segja öllum sem á hlýða hvers vegna við verðum að halda áfram að styðja Úkraínu,“ skrifaði Mark Kelly meðal annars.
Eftir að Kelly hafði reifað ferðina til Úkraínu og gagnrýnt málflutning Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að undanförnu svaraði Elon Musk honum einfaldlega með því að skrifa:
„Svikari.“
Ummæli Musk féllu í grýttan jarðveg hjá mörgum en Mark Kelly þjónaði sem flugmaður í bandaríska sjóhernum í 25 ár og var einnig geimfari hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA.
„Mark Kelly, öldungadeildarþingmaður Bandaríkjanna, tók þátt í 39 hernaðaraðgerðum í Írak. Hann flaug geimskutlu fjórum sinnum. Hann fór til Kænugarðs og kallaði eftir því að Úkraína yrði varin. Elon Musk hefur því stimplað hann sem svikara,” skrifar Dan Hodges, pistlahöfundur hjá The Mail í Bretlandi.
Mark Kelly svaraði einnig ummælum Musk.
„Elon, ef þú skilur ekki að það að verja frelsið sé grundvallaratriði í því sem gerir Bandaríkin frábær og tryggir öryggi okkar, þá ættir þú kannski að láta okkur sem gera það sjá um það.“