Miklar truflanir hafa verið á miðlinum X, áður Twitter, og Elon Musk, eigandi miðilsins, segir að um umfangsmikil netárás valdi þessu.
„Það var (er enn) gerð umfangsmikil netárás á X,“ skrifar Musk á X.
„Annað hvort stór og samstilltur hópur og/eða land,“ bætir hann við.
Einn svaraði færslu Musk og sagði að „þeir“ vildu þagga niður í honum og samfélagsmiðlinum. Musk svaraði einfaldlega: „Já.“
Hverjir „þeir“ eru liggur þó ekki fyrir.
Notendur hafa orðið varir við einhverja röskun á miðlinum í dag og ljóst að X virkar ekki sem skyldi.
Tilkynningar um vandamál tengd X byrjuðu snemma í morgun og notendur í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku sögðust ekki geta notað miðilinn. Þegar mest var tilkynntu yfir 40.000 manns að samfélagsmiðlinn lægi niðri.
Flestar tilkynningar bárust frá fólki sem reyndi að nota X í snjallsímum en einnig bárust tilkynningar frá fólki sem reyndi að komast inn á miðilinn í gegnum tölvu.