Fraktskipið Solong, sem skall á 16 hnúta hraða á olíuflutningaskipinu Stena Immaculate í Norðursjó, var með 15 gáma af natríumblásýrusalti um borð.
Natríumblásýrusalt (NaCN) er eitrað duft, sem notað er meðal annars við vinnslu málmblendis og málmgrýtis og við rafhúðun. Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA) lýsir efninu sem hvítu kristalsefni með daufri möndlulykt.
Svo virðist því sem mikið umhverfisslys sé í uppsiglingu.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Útsetning fyrir blásýrusöltum getur valdið höfuðverk, ógleði, sundli, taugaveiklun, rugli, breytingum á hjartslætti og syfju. Í alvarlegustu tilfellunum geta orðið hjarta- og öndunarerfiðleikar eða jafnvel dauði.
Dr. Mark Hartl, dósent í sjávarlíffræði við Herriot Watt-háskóla í Edinborg, segir blásýrusölt leysast auðveldlega í vatni og að geti verið eitruð þar sem þau trufla öndun dýra. Ef efnið er hitað upp segir hann það einnig geta myndað eitraða lofttegund.
Ekki er ljóst hvort efnið hefur brunnið eða farið í sjóinn, en með inntöku þess geta sjávarlífverur dáið.
Hartl segir sjávarlífverur eins og fiska hafa mikil forvarnarviðbrögð, svo að mögulegt sé að þeir hafi þegar yfirgefið svæðið.