Búið er að aflýsa mörg hundruð flugferðum víða í Þýskalandi í dag vegna verkfalla en starfsfólk flugvalla stendur nú í baráttu fyrir betri kjörum. Þetta hefur raskað ferðaáætlunum fjölmargra ferðalanga, þar á meðal íslenskra.
Þýska stéttarfélagið Verdi stendur fyrir aðgerðunum sem hófust óvænt í gær á flugvellinum í Hamborg. Félagið hafði áður sagt að verkföll myndu ekki hefjast fyrr en í dag.
Farþegar í Frankfurt, München, Berlín og víðar hafa verið hvattir til að fara ekki á vellina þar sem flestöll þjónusta liggur niðri.
Alþjóðaflugvöllurinn í Frankfurt er sá fjölfarnasti í Þýskalandi. Talsmenn hans segja að farþegar geti ekki farið um borð í vélar og að ástandið muni einnig hafa áhrif á samgöngur.
Verdi gætir hagsmuna starfsfólks í opinbera geiranum og fólks sem starfar við samgöngur. Félagið hefur staðið í langvarandi deilu um launakjör starfsfólks og starfsskilyrði.
Fram kemur í þýskum fjölmiðlum að útlit sé fyrir að mörg þúsund flugferðum verði aflýst í dag sem hafi áhrif á ferðir um 500.000 flugfarþega.