Bregðast við tillögu að vopnahléi

Fagna leiðtogarnir allir jákvæðum skrefum í átt að varanlegum friði …
Fagna leiðtogarnir allir jákvæðum skrefum í átt að varanlegum friði í Úkraínu. Samsett mynd/AFP

Helstu leiðtogar Evrópu hafa brugðist við svokölluðum jákvæðum skrefum í átt að vopnahléi í innrásarstríði Rússa í Úkraínu í dag. Fagna þeir því að Úkraína hafi ákveðið að samþykkja tillögu Bandaríkjanna um að koma á 30 daga tafarlausu vopnahléi til bráðabirgða. 

Rússar hafa ekki enn samþykkt tillöguna en Donald Trump Bandaríkjaforseti segist munu ræða við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag eða á morgun. 

„Ég fagna samkomulaginu innilega og óska Donald Trump Bandaríkjaforseta og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta til hamingju með þessi merkilegu tímamót. Nú verða Rússar að samþykkja vopnahlé og binda enda á átökin,“ sagði Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands í yfirlýsingu. 

Skref í átt að varanlegu vopnahléi

Í svipaðan streng tók Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu, sem segist fagna því að Úkraína hafi samþykkt tímabundið vopnahlé. Kveðst hún styðja Bandaríkjastjórn undir forystu Trumps til að koma á varanlegu vopnahléi. 

Sömuleiðis hefur Emmanuel Macron Frakklandsforseti brugðist við og segir að nú sé boltinn greinilega hjá Rússum. Hann kveðst vonast til þess að 30 daga vopnahlé verði samþykkt. 

Tveir æðstu embættismenn Evrópusambandsins hafa einnig fagnað árangrinum sem náðist á fundi Bandaríkjanna og Úkraínu í Sádi-Arabíu í dag. 

„Þetta er jákvæð þróun sem getur verið skref í átt að varanlegum friði í Úkraínu. Boltinn er nú hjá Rússum,“ sögðu Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, og Antonio Costa, forseti Evrópuráðsins, í yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert