Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti í dag ræðu fyrir litháenska þingið í tilefni þess að í dag eru 35 ár liðin frá endurheimt sjálfstæðis Litháa.
Litháar hafa haldið þessa athöfn á fimm ára fresti og er forseta Alþingis ávallt boðið.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, komst ekki en Bryndís er 1. varaforseti Alþingis.
„Í ræðu minni fjallaði ég um mikilvægi þessarar samstöðu sem þeir höfðu sýnt fyrir 35 árum síðan og þeirra hugrekki þegar þeir kröfðust þess að endurheimta sitt sjálfstæði. Ég fékk kusk í augun yfir þeim ræðum sem fluttar voru í dag og að finna fyrir því hversu ofboðslega mikið þakklæti er hjá Litháum yfir því að við höfum verið þjóðin – þingið – sem varð fyrst til þess að viðurkenna sjálfstæði þeirra,“ segir Bryndís í samtali við mbl.is.
Hún átti fund með þingforsetum Eystrasaltsríkjanna, Úkraínu, Póllands og Finnlands þar sem varnarmál voru í brennidepli.
„Það er engin tilviljun að þeir bjóði Úkraínu til þessara hátíðarhalda núna því þeir sjá auðvitað mjög mikið samræmi á milli þess sem Úkraínu er að berjast við núna og því sem þeir hér í Litháen hafa þurft að gera í gegnum aldirnar. Hér eru varnarmálin langstærsti hlutinn af öllu samtalinu,“ segir Bryndís.
Hún segir það vera skýrt á samtölunum sem hún hafi átt að mikil samstaða sé um að Evrópa þurfi að standa saman og efla sínar varnir.
Orðræða Bandaríkjaforseta ýti enn frekar undir mikilvægi þess að Evrópa standi saman.
„Þessi ríki vita það að það sem gerist í Úkraínu mun hafa áhrif á þeirra ríki.“