Menntamálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að starfsmönnum ráðuneytisins yrði fækkað um tæplega helming.
Yfir 1.300 starfsmönnum var sagt upp störfum og um 600 starfsmenn samþykktu eins konar starfslokasamning þar sem þeir fá greitt fram í september en gegna engum starfsskyldum. Þá var yfir 60 tímabundnum starfsmönnum sagt upp.
Stjórnvöld segja að af þeim 4.133 starfsmönnum sem fyrir voru þá verði aðeins 2.183 starfsmenn eftir.
Stjórnmálaskýrendur vestanhafs segja uppsagnirnar geta verið undanfara þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti leggi niður ráðuneytið.
Ráðuneytið hefur einnig sagt upp leigusamningum sínum á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum, meðal annars í New York, Boston, Chicago og Cleveland, að sögn Rache Cleveland, starfsmannastjóra ráðuneytisins.
Skrifstofustjórar ráðuneytisins segja að ráðuneytið muni halda áfram að sinna lykilhlutverkum sínum eins og úthlutun ríkisstyrkja til skóla og að hafa umsjón með námsstyrkjum.
„Niðurskurðurinn endurspeglar skuldbindingu menntamálaráðuneytisins við skilvirkni, ábyrgð og að tryggja að fjármagni sé beint þangað sem það skiptir mestu máli: Til nemenda, foreldra og kennara,“ sagði Linda McMahon menntamálaráðherra í dag.