Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir boltann nú vera hjá Rússum þegar kemur að því að ná samkomulagi um vopnahlé í innrásarstríði þeirra í Úkraínu.
Frá þessu greindi hann að loknum viðræðum sem staðið hafa yfir á milli Bandaríkjanna og Úkraínu í Sádi-Arabíu í dag.
Segir hann að Úkraína hafi tekið jákvæð skref á fundinum og kveðst vonast til þess að Rússar taki við sér.
Hann segist á næstu dögum munu hafa samband við rússneska ráðamenn og tilkynna þeim hvaða tillögur standi til boða. Hann segir að það séu engin tímamörk á því hvenær vopnahléi verði náð en kveðst vonast til þess að það verði sem fyrst.
Bandaríkin munu hafa fallist á að hefja á ný að deila njósnaupplýsingum með Úkraínu og að veita Úkraínumönnum öryggisaðstoð að nýju.
Sömuleiðis eiga fulltrúar Úkraínu að hafa lýst sig reiðubúna til að samþykkja tillögu Bandaríkjamanna um að setja tafarlaust 30 daga vopnahlé til bráðabirgða.
Fréttin hefur verið uppfærð.