Kosið í skugga Trumps

Grænlendingar ganga í dag að kjörborðinu og kjósa 31 nýjan þingmann á Inatsisartut, grænlenska þinginu.

Úrslitin gætu varpað ljósi á hvenær þjóðin, sem telur 57 þúsund manns, mun sækjast eftir sjálfstæði frá Dönum sem meirihluti Grænlendinga styður.

Kosningarnar í ár eru haldnar í skugga nýs Bandaríkjaforseta sem hefur heitið því að ná tökum á eyjunni „með einum eða öðrum hætti“.

Grænlendingar velja sér nýja þingmenn í dag.
Grænlendingar velja sér nýja þingmenn í dag. Annie Spratt/Unsplash

Vilja ekki Trump

Hans Kaali Davidsen, íbúi í grænlensku höfuðborginni Nuuk, segir Grænlendinga ekki hafa áhuga á að Donald Trump Bandaríkjaforseti taki Grænland yfir.

„Trump, hvernig hann hefur farið með sín eigin stjórnmál og sitt eigið land og hvernig allt er að þróast í Bandaríkjunum – nei, við viljum hann ekki,“ segir Davidsen við fréttastofu AFP.

Hann segir áhuga forsetans á Grænlandi þó hafa varpað athygli heimsbyggðarinnar á norðurslóðir.

„Allir eru nú að einblína á okkur. Að því leytinu til er þetta jákvætt.“

Tímalínan óskýr

Yfirgnæfandi meirihluti Grænlendinga eru Inúítar, eða tæp 90%. Grænlendingar hafa lengi lýst óánægju sinni með framkomu danskra stjórnvalda gagnvart þjóðinni.

Allir stærstu flokkarnir sem keppast nú um atkvæði Grænlendinga eru hliðhollir sjálfstæði. Eini ágreiningurinn er um hve fljótt það gæti raungerst.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Naleraq vill að Grænlendingar sækist eftir sjálfstæði sem fyrst. Vinstri flokkarnir Inuit Ataqatigiit og Siumut, sem skipa nú meirihlutann, vilja frekar bíða eftir því að fara fram á sjálfstæði þar til eyjan er fjárhagslega sjálfstæð.

Sjaldgæfir málmar gætu hjálpað

Grænlendingar reiða sig einna helst á sjávarútveginn, en sjávarafurðir telja næstum allan útflutning eyjunnar.

Einn fimmti af vergri landsframleiðslu landsins eru ríkisstyrkir frá Danmörku.

Helstu talsmenn þess að Grænlendingar sæki um sjálfstæði hið fyrsta benda á að Grænlendingar muni bráðum ná meira fjárhagslegu sjálfstæði vegna vinnslu á sjaldgæfum málmum úr jörðu en slíkt hefur farið vaxandi undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert