Mark Carney, verðandi forsætisráðherra Kanada, segir að kanadíska ríkisstjórnin muni ekki bregða út af því að setja tolla á Bandaríkin þar til Bandaríkjamenn sýni Kanadamönnum virðingu og vilja í verki til að stunda frjáls viðskipti.
Þetta kemur í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í dag að tvöfalda fyrirhugaða tolla á ál og stál frá Kanada. Tollarnir verða því 50% og taka þeir gildi á miðnætti á bandarískum tíma.
Carney segir tollana vera árás á kanadískt launafólk, fjölskyldur og fyrirtæki.
„Ríkisstjórnin mun tryggja að viðbrögð okkar hafi sem mest áhrif í Bandaríkjunum og minnst áhrif hér í Kanada,“ sagði Carney.
Kanada og Bandaríkin eiga mikil viðskipti sín á milli. Helmingur af öllu innfluttu áli í Bandaríkjunum kemur frá Kanada og 20% af öllu innfluttu stáli.
Fyrr í þessum mánuði setti Trump 25% flata tolla á flestar vörur frá Kanada. Í kjölfarið setti Kanada á 25% hefndartolla og sagði Justin Trudeau, fráfarandi forsætisráðherra Kanada, Trump vera að reyna að knésetja kanadískt efnahagslíf til þess að gera það auðveldara að innlima Kanada sem 51. ríki Bandaríkjanna.