Láta ekki af tollum nema þeim verði sýnd virðing

Carney segir tollana vera árás á kanadískt launafólk, fjölskyldur og …
Carney segir tollana vera árás á kanadískt launafólk, fjölskyldur og fyrirtæki. Samsett mynd/AFP

Mark Carney, verðandi forsætisráðherra Kanada, segir að kanadíska ríkisstjórnin muni ekki bregða út af því að setja tolla á Bandaríkin þar til Bandaríkjamenn sýni Kanadamönnum virðingu og vilja í verki til að stunda frjáls viðskipti. 

Þetta kemur í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað í dag að tvöfalda fyrirhugaða tolla á ál og stál frá Kanada. Tollarnir verða því 50% og taka þeir gildi á miðnætti á bandarískum tíma. 

Carney segir tollana vera árás á kanadískt launafólk, fjölskyldur og fyrirtæki. 

„Ríkisstjórnin mun tryggja að viðbrögð okkar hafi sem mest áhrif í Bandaríkjunum og minnst áhrif hér í Kanada,“ sagði Carney. 

Segir Trump vilja innlima Kanada í Bandaríkin

Kanada og Bandaríkin eiga mikil viðskipti sín á milli. Helmingur af öllu innfluttu áli í Bandaríkjunum kemur frá Kanada og 20% af öllu innfluttu stáli. 

Fyrr í þessum mánuði setti Trump 25% flata tolla á flestar vörur frá Kanada. Í kjölfarið setti Kanada á 25% hefndartolla og sagði Justin Trudeau, fráfarandi forsætisráðherra Kanada, Trump vera að reyna að knésetja kanadískt efnahagslíf til þess að gera það auðveldara að innlima Kanada sem 51. ríki Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert