Svíar segja Rússa vera mestu ógnina

Sænskir hermenn á eyjunni Gotland í Eystrasalti.
Sænskir hermenn á eyjunni Gotland í Eystrasalti. AFP

Sví­um staf­ar mest ógn af Rúss­um sök­um árás­ar­gjarnr­ar af­stöðu Rúss­lands til Vest­ur­landa eft­ir því sem sænska ör­ygg­isþjón­ust­an Sapo seg­ir en BBC grein­ir frá.

Í árs­skýrslu Sapo kem­ur fram að á sama tíma og Sví­ar hafi aukið ör­yggi sitt með aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu, NATO, hafi það einnig leitt til auk­inn­ar rúss­neskr­ar leyniþjón­ust­u­starf­semi í og við Svíþjóð.

Sapo met­ur ör­ygg­is­ástandið í Svíþjóð al­var­legt og seg­ir það geta versnað. Er­lend ríki starfi á meira ógn­andi hátt en áður þar sem fjölþátta ógn­ir komi við sögu á sama tíma og at­vik­um fjölgi tengd­um of­beld­is­fullri öfga­hyggju.

Char­lotte von Essen, yf­ir­maður ör­ygg­isþjón­ust­unn­ar, seg­ir áþreif­an­lega hættu á að ör­ygg­is­ástandið versni enn frek­ar og erfitt geti verið að spá fyr­ir um af­leiðing­arn­ar.

Charlotte von Essen, yfirmaður sænsku öryggisþjónustunnar, Sapo, fer yfir skýrsluna …
Char­lotte von Essen, yf­ir­maður sænsku ör­ygg­isþjón­ust­unn­ar, Sapo, fer yfir skýrsl­una í Stokk­hólmi í dag. AFP/​Jessica Gow

Grafa und­an sam­heldni

Sví­ar gengu í NATO á síðasta ári en Sapo tel­ur að leyniþjón­ust­u­starf­semi Rússa sé fyrst og fremst miðuð að því að grafa und­an sam­heldni milli NATO-ríkja og vinna gegn vest­ræn­um stuðningi við Úkraínu.

Í skýrsl­unni nefndi Sapo grun­sam­leg at­vik sem tengj­ast innviðum og í sum­um til­fell­um hvaða lönd gætu hafa staðið að baki þeim.

Sæ­streng­ir og gas­leiðslur hafa verið skemmd­ar síðan Rúss­ar réðust inn í Úkraínu sem orðið hef­ur til þess að NATO jók eft­ir­lit á hafsvæðum.

Síðast var til­kynnt um slíkt í fe­brú­ar ná­lægt Gotlandi, stærstu eyj­unni við Svíþjóð.

Veru­leg ör­ygg­is­ógn af fleiri ríkj­um

Stjórn­völd í Svíþjóð hafa einnig bent á að af bæði Íran og Kína stafi veru­leg ör­ygg­is­ógn.

Á síðasta ári sakaði Sapo ír­anska leyniþjón­ustu um að hafa brot­ist inn í texta­skila­boðaþjón­ustu til að senda 15.000 skila­boð til al­menn­ings í Svíþjóð í kjöl­far nokk­urra Kór­an­brenna.

Í skýrslu Sapo kem­ur fram að netárás­ir og tækniþjófnaður séu meðal ógna sem stafa af leyniþjón­ust­u­starf­semi er­lendra ríkja.

Þá kem­ur fram að enn sé tal­in mik­il hryðju­verka­ógn í land­inu og að fjöl­breyti­leiki ógn­ar­inn­ar sé að aukast.

Sví­ar tak­ast á við eft­ir­mál­ana

Von Essen seg­ir Sapo hafa séð dæmi þess að þjóðir, þar á meðal Rúss­land og Íran, hafi hvatt ein­stak­linga, oft ungt fólk, til að beita of­beld­is­verk­um.

Í því sam­bandi bend­ir hún á að al­var­leg­ar árás­ir hafi átt sér stað í Frakklandi, Þýskalandi og Aust­ur­ríki.

„Sví­ar tak­ast sjálf­ir á við eft­ir­mála hræðilega at­viks­ins í Öre­bro í síðasta mánuði,“ sagði hún og vísaði til verstu fjölda­skotárás­ar sem gerð hef­ur verið í Svíþjóð þar sem bys­sumaður lét til skar­ar skríða í skóla og níu manns féllu í val­inn.

Hættu­stig vegna hryðju­verka í Svíþjóð er metið til fjög­urra punkta á fimm punkta skala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert