Svíum stafar mest ógn af Rússum sökum árásargjarnrar afstöðu Rússlands til Vesturlanda eftir því sem sænska öryggisþjónustan Sapo segir en BBC greinir frá.
Í ársskýrslu Sapo kemur fram að á sama tíma og Svíar hafi aukið öryggi sitt með aðild að Atlantshafsbandalaginu, NATO, hafi það einnig leitt til aukinnar rússneskrar leyniþjónustustarfsemi í og við Svíþjóð.
Sapo metur öryggisástandið í Svíþjóð alvarlegt og segir það geta versnað. Erlend ríki starfi á meira ógnandi hátt en áður þar sem fjölþátta ógnir komi við sögu á sama tíma og atvikum fjölgi tengdum ofbeldisfullri öfgahyggju.
Charlotte von Essen, yfirmaður öryggisþjónustunnar, segir áþreifanlega hættu á að öryggisástandið versni enn frekar og erfitt geti verið að spá fyrir um afleiðingarnar.
Svíar gengu í NATO á síðasta ári en Sapo telur að leyniþjónustustarfsemi Rússa sé fyrst og fremst miðuð að því að grafa undan samheldni milli NATO-ríkja og vinna gegn vestrænum stuðningi við Úkraínu.
Í skýrslunni nefndi Sapo grunsamleg atvik sem tengjast innviðum og í sumum tilfellum hvaða lönd gætu hafa staðið að baki þeim.
Sæstrengir og gasleiðslur hafa verið skemmdar síðan Rússar réðust inn í Úkraínu sem orðið hefur til þess að NATO jók eftirlit á hafsvæðum.
Síðast var tilkynnt um slíkt í febrúar nálægt Gotlandi, stærstu eyjunni við Svíþjóð.
Stjórnvöld í Svíþjóð hafa einnig bent á að af bæði Íran og Kína stafi veruleg öryggisógn.
Á síðasta ári sakaði Sapo íranska leyniþjónustu um að hafa brotist inn í textaskilaboðaþjónustu til að senda 15.000 skilaboð til almennings í Svíþjóð í kjölfar nokkurra Kóranbrenna.
Í skýrslu Sapo kemur fram að netárásir og tækniþjófnaður séu meðal ógna sem stafa af leyniþjónustustarfsemi erlendra ríkja.
Þá kemur fram að enn sé talin mikil hryðjuverkaógn í landinu og að fjölbreytileiki ógnarinnar sé að aukast.
Von Essen segir Sapo hafa séð dæmi þess að þjóðir, þar á meðal Rússland og Íran, hafi hvatt einstaklinga, oft ungt fólk, til að beita ofbeldisverkum.
Í því sambandi bendir hún á að alvarlegar árásir hafi átt sér stað í Frakklandi, Þýskalandi og Austurríki.
„Svíar takast sjálfir á við eftirmála hræðilega atviksins í Örebro í síðasta mánuði,“ sagði hún og vísaði til verstu fjöldaskotárásar sem gerð hefur verið í Svíþjóð þar sem byssumaður lét til skarar skríða í skóla og níu manns féllu í valinn.
Hættustig vegna hryðjuverka í Svíþjóð er metið til fjögurra punkta á fimm punkta skala.