Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að hann myndi tvöfalda fyrirhugaða tolla á ál og stál frá Kanada og verða tollarnir því 50%.
Um miðnætti í kvöld eiga að taka gildi 25% tollar á innflutning á stáli og áli en Trump kveðst hafa ákveðið að hækka tolla á Kanada enn frekar í ljósi þess að Ontario-fylki ákvað að svara fyrstu tollum Trumps með því að selja Bandaríkjamönnum rafmagn á 25% hærra verði.
Kanada er einn nánasti bandamaður Bandaríkjanna og stunda þjóðirnar mikil viðskipti. Helmingurinn af öllu innfluttu áli í Bandaríkjunum kemur frá Kanada og 20% af öllu innfluttu stáli í Bandaríkjunum kemur frá Kanada.
Eftir að Trump boðaði 25% tolla á Kanada svaraði Ontario-fylki með því að hækka verð á rafmagni sem þeir selja til Bandaríkjanna, og ríki í norðurhluta Bandaríkjanna reiða sig á, um 25%.
Trump sagði í dag að ef ekki yrði fallið frá þessari verðhækkun þá myndi hann stórauka tolla á bifreiðar frá Kanada 2. apríl.
Þetta myndi „í meginatriðum loka fyrir bílaframleiðslu í Kanada til frambúðar,“ sagði Trump.
Trump sagði að það eina skynsamlega í stöðunni væri að Kanada yrði 51. ríki Bandaríkjanna.
„Þetta myndi gera það að verkum að allir tollar, og allt annað, myndu alveg hverfa. Skattar verða lækkaðir mjög verulega, Kanadamenn verða öruggari, hernaðarlega og að öðru leyti, en nokkru sinni fyrr. Það yrði ekki lengur vandamál á norðurlandamærunum,“ sagði Trump.