Úkraína og Bandaríkin hófu viðræður í Sádi-Arabíu í dag um mögulegt vopnahlé á innrásarstríði Rússlands í Úkraínu.
Viðræðurnar hófust nokkrum klukkustundum eftir að Úkraínumenn gerðu stóra drónaárás á Moskvu og svæðið þar um kring í nótt en árásin er sögð vera sú umfangsmesta frá því Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, eru á fundinum en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur aukið þrýsting á Úkraínumenn að binda enda á stríðið við Rússa.
„Við erum reiðubúin að gera allt til að ná friði,“ sagði Andrí Jermak, starfsmannastjóri Úkraínuforseta, við fréttamenn þegar hann kom á fundinn, en ekki er búist við að rússnesk sendinefnd muni mæta.
Embættismenn í Kænugarði sögðu að drónaárásin í nótt hafi verið ætluð til að þrýsta á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að samþykkja vopnahlé frá lofti og sjóher.
Úkraínumenn vonast til þess að tilboð þeirra um vopnahlé í lofti og á sjó muni sannfæra Bandaríkjamenn um að hefja hernaðaraðstoð, miðlun upplýsinga og aðgang að gervihnattamyndum sem lokað var á eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lentu í harkalegu orðaskaki á fundi þeirra í Hvíta húsinu á dögunum.
Selenskí var rekinn á dyr án þess að hann hefði undirritað samning við Bandaríkin um að deila jarðefnisauðlindum Úkraínu. Úkraínuforsetinn hefur sagt að hann sé enn tilbúinn til að skrifa undir samninginn við Bandaríkin en Marco Rubio segir að það verði ekki í brennidepli á fundinum í dag.
„Vonandi eigum við góðan fund og góðar fréttir að segja,“ sagði Rubio við fréttamenn fyrir fundinn í dag.