Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni eiga hagsmuna að gæta náist samkomulag við Úkraínu varðandi auðlindir landsins. Ráðherrann gaf þó ekki loforð um að slíkur samningur myndi þýða að öryggi landsins væri tryggt.
„Ég myndi ekki orða það sem tryggingu fyrir öryggi, en vissulega, ef Bandaríkin eiga efnahagslegra hagsmuna að gæta sem skapa tekjur fyrir okkar fólk, sem og fyrir íbúa Úkraínu, þá hefðum við hagsmuni af því að vernda það,“ sagði Rubio á blaðamannafundi.
„Vissulega er öflugur hagvöxtur og þróun eitt af því sem tryggir velmegun og öryggi Úkraínu til langs tíma,“ bætti hann við.
Hann segir að vaxandi efnahagur veiti Úkraínumönnum gríðarlegan slagkraft, völd og getu til að fjármagna eigin varnir.
Úkraínskir embættismenn höfðu samþykkt að funda með Robio og Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafa Trumps Bandaríkjaforseta, í Jeddah í gær til að styðja 30 daga vopnahlé gerði Rússland slíkt hið sama.
Bæði ríkin samþykktu einnig að undirrita samning um jarðefni sem fyrst sem myndi veita Bandaríkjunum aðgang að náttúruauðlindum Úkraínu.
Samningurinn var ekki undirritaður eftir misheppnaðan fund þeirra Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta og Trumps í Hvíta húsinu þann 28. febrúar.
Rubio sagði að Bandaríkin hefðu haft samband við Rússland í dag og væru að meta viðbrögð þeirra.