„Mjög víðtæk samstaða“ er að myndast meðal Evrópuþjóða um að efla langtímaöryggi Úkraínu í gegnum úkraínska herinn, að sögn Sebastien Lecornu, varnarmálaráðherra Frakklands.
Varnarmálaráðherrar Frakklands, Bretlands, Þýskalands, Ítalíu og Póllands – fimm helstu valdaríkja Evrópu í varnarmálum – funduðu í París í dag.
Þeir viðurkenndu þær áskoranir sem stafa af nýrri ríkisstjórn Donalds Trump – á sama tíma og þeir kröfðust þess að Evrópa væri reiðubúin að standa á eigin fótum.
„Það er augljóslega mjög víðtæk samstaða að myndast... að fyrsta öryggisábyrgðin fyrir Úkraínu sé augljóslega úkraínski herinn sjálfur,“ sagði Lecornu og útilokaði alla „afvopnun“ Úkraínu eftir stríðið.
„Orðið „afvopnun“ er að koma fram, en það er ekki raunin. Þvert á móti verður raunveruleg trygging fyrir langtímaöryggi sú hæfni sem við munum geta veitt úkraínska hernum,“ bætti Lecornu – helsti bandamaður Emmanuel Macron Frakklandsforseta – við.
Sagði hann einnig að á þessu stigi hafi um fimmtán lönd sýnt áhuga á að halda þessu ferli áfram, með varanlegt vopnahlé fyrir augum í Úkraínu.
Hann sagði öryggi Úkraínu eftir stríð ekki mega vera eingöngu hugsað út frá evrópskum hermönnum sem hægt væri að senda þangað en fullyrti ítrekað að þetta væri ekki mál til að taka ákvörðun um núna.
Wladyslaw Kosiniak-Kamysz, varnarmálaráðherra Póllands, fagnaði einnig „raunverulegri sameiningu Evrópu“ og vísaði til ógnarinnar frá Rússlandi.
Að hans mati er mikilvægast að „halda Rússlandi í fjarlægð frá öllum löndum Evrópu, og til að gera það, verðum við að hjálpa Úkraínu“.