Íslendingur sem stundar nám í eldfjallafræði í Napólí á Ítalíu segist hafa fundið vel fyrir jarðskjálftunum sem riðu yfir Napólí-svæðið í nótt en stærsti skjálftinn mældist 4,4 að stærð.
„Það varð smá hristingur og ég fann vel fyrir stærsta skjálftanum en mestu skemmdir vegna skjálftans urðu í bænum Pozzuoli sem er næst upptökum skjálftanna,“ segir Eiríkur Örn Pétursson í samtali við mbl.is en hann er á öðru ári í meistaranámi sínu.
Eiríkur segist ekki vita til þess að það hafi orðið miklar skemmdir í borginni. Eitthvað hafi verið um að húsplötur hafi fallið á bíla en í Pozzuoli hafi orðið skemmdir á húsum og byggingum og vitað er að fólk hafi eytt nóttinni í tjöldum utandyra eða í bílum sínum. Skólar í bænum eru lokaðir í dag.
Þetta er einn stærsti jarðskjálfti sem íbúar í Napólí hafa fundið fyrir undanfarin ár en tveir minni skjálftar fylgdu þeim stærsta. Napólí er nálægt Campi Flagrei, stóru og virku öskjueldfjalli, sem gaus síðast árið 1538.
„Þetta er stærsti skjálftinn sem hefur mælst frá því þessi jarðskjálftahrina hófst fyrir tveimur árum. Það er alveg ljóst að það verður gos á Campi Flagrei í framtíðinni en það er ekki hægt að segja til um það hvenær það verður,“ segir Eiríkur.
Hann segir að fylgst hafi verið með landrisi á þessu svæði allar götur síðan 1950 og mismunandi stærðum af gosum sem gætu orðið.
Gaetano Manfredi, borgarstjóri Napólí, segir í samtali við fjölmiðla að tíu hafi verið fluttir til skoðunar á sjúkrahús.
Hálf milljón manna býr á Napólí-svæðinu en í maí í fyrra urðu álíka stórir jarðskjálftar sem voru þeir stærstu í 40 ár. Þá urðu engin meiðsli á fólki en talsverðar skemmdir urðu á húsum og byggingum.