Steve Witkoff sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar kom í dag til rússnesku höfuðborgarinnar Moskvu í þeim erindagjörðum að kynna þar áætlun Bandaríkjamanna um 30 daga vopnahlé á Úkraínustríðinu, hefur AFP-fréttastofan eftir heimildarmanni þar um og fylgdi sögunni að rússnesk stjórnvöld hefðu varað eindregið við „skyndisamkomulagi“ er gæfi þeim úkraínsku hvíldartíma frá vörnum lands síns.
Hafa stjórnarherrarnir í Úkraínu þegar samþykkt áætlunina – hlaut hún samþykki þeirra á fundi með fulltrúum Bandaríkjanna í Sádi-Arabíu á þriðjudaginn, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur eggjað hlutaðeigendur mjög til að ná samkomulagi um endalok þriggja ára átaka Rússlands og Úkraínu.
Að sögn eins aðstoðarmanna Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta krefjast Rússar þess að áætlunin geri ráð fyrir stöðu Rússlands í málinu, það sem rætt var á þriðjudaginn snúi eingöngu að Úkraínu.
„Nauðsynlegt er að skoða áætlunina, hugsa hana og taka okkar stöðu með,“ sagði Júrí Úsjakov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum árin 1998 til 2008 og nú ráðgjafi rússneskra stjórnvalda í utanríkismálum, í samtali við rússneska ríkissjónvarpsstöð og kvað líklegt að Trump legði fram sitt álit að þeirri endurskoðun lokinni.
Hefur Trump látið í ljós bjartsýni á að sendinefnd hans nái að koma samkomulagi um vopnahlé í höfn þrátt fyrir að Rússar hafi undanfarið sótt í sig veðrið við víglínuna.
„Auðnist okkur að fá Rússa til að vægja höfum við náð fram vopnahléi. Ég efast um að þaðan verði aftur snúið í átök,“ sagði forsetinn í gær.