Líklega rangt að loka öllu

Helsta lífæð Óslóar þegar allt er með felldu, gata Karls …
Helsta lífæð Óslóar þegar allt er með felldu, gata Karls III Jóhanns, konungs Noregs og Svíþjóðar frá 1818 til 1844. Myndin er tekin á ellefta tímanum fimmtudagsmorguninn 4. febrúar 2021, nokkru eftir að næsta kórónulokunartímabil á eftir því sem hófst 12. mars 2020. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Norskir fjölmiðlar rifjuðu í gær upp 12. mars vorið 2020 þegar Erna Solberg þáverandi forsætisráðherra tilkynnti í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar að stór hluti þjóðfélagsins lokaði dyrum sínum til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar sem þá var tekin að herða tök sín um alla Evrópu.

Sama dag greip Ísland til sinna lokana, Danmörk daginn eftir og Finnland 16. mars. Svíar biðu og varð umdeilt.

Solberg og þáverandi heilbrigðisráðherra, Bent Høie, voru bæði viðstödd blaðamannafundinn sem haldinn var til að tilkynna um lokunina og kom fram í máli þeirra að eins og staðan væri hefði 621 kórónuveirusmit greinst í landinu.

Eins metra reglan og lokaðar menntastofnanir urðu daglegur raunveruleiki þjóðarinnar og 12. mars lagðist órætt og undarlegt andrúmsloft yfir höfuðborgina Ósló þar sem blaðamaður var búsettur á þeim tíma – þjóðin hélt niðri í sér andanum og beið þess er verða vildi.

Høie og tommustokkurinn

Fólk tók að heilsast með olnbogum sínum og „halda metranum“ í varúðarskyni. Ein af mörgum kunnum táknmyndum vorsins 2020 í Noregi var Høie heilbrigðisráðherra með tommustokkinn að minna á metrann.

Nemendur og kennarar rifja upplifun sína upp í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og kveður Mette Horn Eliasen, sem á þessum tíma var kennari í fullorðinsfræðslu, sem meðal annars þjónar innflytjendum og öðrum nýjum notendum norskrar tungu, að henni hafi verið sérstaklega þungbært að útskýra fyrir erlendu nemendunum sínum að nú yrðu þeir að halda sig heima.

„Þetta var þeim mjög þungbær dagur. Þetta var okkur öllum eitthvað nýtt og óraunverulegt,“ segir Eliasen og bætir því við að eftirhreytur kórónuveiruáranna tveggja megi meðal annars merkja af því að eftir sitji kannski einhvers konar ótti við hið háskalega og óþekkta. „Fólk er orðið varara um sig hvað hreinlæti snertir  og að snerta ekki hluti,“ segir kennarinn.

Man daginn mínútu fyrir mínútu

Preben Aavitsland, starfandi forstjóri norsku lýðheilsustofnunarinnar Folkehelseinstituttet, segir við NRK að eftir á að hyggja hafi ýmislegt mátt meðhöndla ýmislegt öðruvísi í árdaga kórónuveirunnar. „Líklega voru það mistök að taka upp svo strangar varúðarreglur á landsvísu,“ segir forstjórinn og bendir á Stórþingið hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að lokun skólanna hafi verið vanhugsuð.

„Ég man þennan dag næstum mínútu fyrir mínútu,“ segir heilbrigðisráðherrann þáverandi Høie og kveðst í framhaldinu hafa séð sjálfan sig utan frá mínúturnar áður en þau Solberg tilkynntu um stærsta inngrip í líf norsks almennings á friðartímum.

„Alvaran var þung mínúturnar áður en við tókum okkur stöðu í ræðupúltinu og tilkynntum um það sem ég vissi að kæmi til með að hafa áhrif á líf allra landsmanna,“ segir Høie við NRK um örlagadag í lífi Norðmanna 12. mars 2020, fyrir fimm árum í dag.

NRK

NRK-II (leiðtogarnir rifja upp erfiða daga)

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert