Samninganefnd Bandaríkjanna er nú lögð af stað til Rússlands þar sem hún hyggst kynna fyrir rússneskum stjórnvöldum áætlun um 30 daga vopnahlé í Úkraínu.
Stjórnvöld í Úkraínu samþykktu áætlun Bandaríkjanna eftir samningaviðræður í Sádí-Arabíu fyrr í þessari viku.
Rússar hafa óskað eftir því að Bandaríkjamenn kynni ákvæði samkomulagsins áður en þeir munu gefa upp hvort þeir telji það ásættanlegt.
„Samningamennirnir eru að fljúga hingað og við höfum skipulagt fundi,“ sagði Dimítrí Peskov, talsmaður Kremlar.
Kreml hefur ekki gert neinar athugasemdir við tillögu Bandaríkjanna og Úkraínu – sem samþykkt var á fundi í Sádi-Arabíu á þriðjudag – en rússneska utanríkisráðuneytið sagði fyrr í þessum mánuði að tímabundið vopnahlé væri óviðunandi.
Rússar hafa þó farið fram á að refsiaðgerðum gegn þeim verði aflétt, aðgerðir sem rússnesk stjórnvöld hafa sagt vera „ólöglegar“.
Peskov vildi ekkert gefa upp um viðræður við Bandaríkjamenn í tengslum við afléttingu aðgerðanna.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt stjórnvöld vilja ná samkomulagi við Rússland án þess að það sé bundið nokkrum skilyrðum.
„Það er það sem við viljum vita - hvort þeir séu tilbúnir til að gera þetta skilyrðislaust,“ sagði Rubio í flugvél á leið á G7-fund í Kanada.