Ný rannsókn hefur leitt í ljós að það að horfa á náttúruna, eða einfaldega stafrænar náttúruljósmyndir, getur dregið úr verkjum.
Fram kemur í umfjöllun AFP að rannsóknir yfir marga áratugi hafi sýnt fram á jákvæð heilsufarsleg áhrif náttúrunnar á fólk. Fyrir rúmum fjórum áratugum sýndi rannsókn, sem markaði þá tímamót, fram á að sjúklingar á sjúkrahúsum þurftu færri verkjalyf og náðu heilsu hraðar þegar þeir horfðu út um glugga á grænt svæði frekar en steinvegg.
„Þar til nú voru undirliggjandi ástæður fyrir þessari verkun óljósar,“ segir Maximilian Steininger, sem er taugavísindamaður við Háskólann í Vín og aðalhöfundur rannsóknarinnar, en hún var birt í gær í vísindaritinu Nature Communications.
Fram kemur að vandamálið sé að bæði náttúran og verkir geti verið huglægir. Af því að fólki líkar við náttúruna þá gæti hún virkað eins og lyfleysa. Sumir spyrja hvort það sé í raun ekki náttúran sjálf sem dragi úr verkjum, heldur borgarumhverfið sem auki þá.
Til að skoða málið betur skráðu rannsakendur heilastarfsemi 49 sjálfboðaliða með starfrænni segulómun (fMRI).
Þátttakendurnir horfðu á mismunandi myndir á meðan þeir fengu rafstuð aftan á vinstri hönd. Sum stuðin voru sársaukafyllri en önnur.
Niðurstaðan leiddi í ljós að þátttakendur í rannsókninni hefðu ekki aðeins greint frá minni verkjum þegar þeir horfðu á náttúrulegar landslagsmyndir, heldur greindu fMRI-skannarnir einnig mun í heila þeirra.
„Rannsókn okkar er sú fyrsta sem sýnir fram á með heilaskönnum að þetta eru ekki bara lyfleysuáhrif,“ sagði Steininger í yfirlýsingu.
Náttúrumyndirnar vöktu minni virkni í þeim hluta heilans sem tengist skynjun á sársauka. Hins vegar urðu aðrir hlutar sem tengjast stjórnun sársauka ekki fyrir marktækum áhrifum.
Rannsakendurnir sögðu að ástæðan gæti verið sú að náttúrulegt umhverfi fangi athygli fólks og beini henni frá sársaukaskynjuninni.
Þetta er þekkt í sálfræði sem kenningin um „athyglisendurnýjun“.
„Það að hægt sé að ná þessum verkjastillandi áhrifum í gegnum sýndarupplifun af náttúrunni, sem er auðvelt að framkvæma, hefur mikilvægar hagnýtar afleiðingar,“ sagði Alex Smalley, meðhöfundur rannsóknarinnar frá Exeter-háskóla í Bretlandi.
Það „opnar einnig nýjar leiðir fyrir rannsóknir til að skilja betur hvernig náttúran hefur áhrif á huga okkar,“ bætti hann við.