Carney sór embættiseið sem nýr forsætisráðherra Kanada

Mark Carney.
Mark Carney. AFP

Mark Carney sór í dag embættiseið sem nýr forsætisráðherra Kanada. Hann tekur nú við stjórnartaumunum á miklum ólgutímum í samskiptum Kanada og Bandaríkjanna.

Frjálslyndi flokkurinn studdi Carney eindregið til að taka við af Justin Trudeau, fyrrverandi forsætisráðherra, en flokkurinn veðjaði á að reynsla Carney af því að leiða tvo seðlabanka í gegnum sögulegar kreppur muni róa Kanadamenn sem standa frammi fyrir viðskiptastríði við Bandaríkin.

„Við ætlum strax að hefjast handa,“ sagði Carney við blaðamenn áður en hann sór embættiseiðinn. Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn verður haldinn í kjölfar athafnarinnar.

 

Fer í heimsókn til Evrópu

Samkvæmt heimildum AFP mun hann fara í sína fyrstu utanlandsferð sem forsætisráðherra til Evrópu í næstu viku.

Carney, sem verður sextugur á sunnudag, er óreyndur í stjórnmálum og hefur aldrei unnið sigur í kosningum, en það mun reyna á það fljótlega þar sem líklegt er að þingkosningar fari fram í Kanada innan fárra vikna.

Reiknað er með að hvöss orðræða Trumps Bandaríkjaforseta gagnvart Kanada muni ráða mestu í tengslum við kosningarnar.

Trump hefur lagt á umfangsmikla innflutningstolla á Kanada og hótað frekari aðgerðum. Þá hefur Trump sagt að Kanada sé ekki sjálfbært heldur eigi að verða hluti af Bandaríkjunum.

Justin Trudeau er forveri Carneys í embætti.
Justin Trudeau er forveri Carneys í embætti. AFP

Alvarleg staða

Carney, sem sór embættiseið sem 24. forsætisráðherra Kanada við athöfn í Ottawa, hefur sagt að afstaða Trumps gagnvart landinu sé alvarlegasta áskorun sem Kanada hefur staðið frammi fyrir í heila kynslóð.

„Allt í mínu lífi hefur búið mig undir þessa stund,“ sagði Carney á sunnudag eftir að hafa sigrað í leiðtogakjöri Frjálslynda flokksins.

Hann er fyrrverandi bankastjóri fjárfestinga hjá Goldman Sachs áður en hann gegndi stöðu seðlabankastjóra Kanada á tímum fjármálakreppunnar 2008-2009. Þá leiddi hann Seðlabanka Englands í gegnum óróann sem varð í kringum Brexit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert