Rússneska tónskáldið Sofia Gubaidulina er látin, 93 ára. Lést hún á heimili sínu í Þýskalandi í gær en þar hafði hún verið búsett frá falli Sovétríkjanna, að því er fram kemur í frétt AFP.
Gubaidulina varð ekki þekkt á alþjóðavettvangi fyrr en hún var um fimmtugt en hún hafði verið sett á svartan lista tónskálda í Sovétríkjum og meinað að gefa út tónlist sína þar. Það var því ekki fyrr en eftir fall Sovétríkjanna og flutning hennar til Þýskalands sem hún öðlaðist þá frægð og viðurkenningu sem tónskáldið þykir hafa átt skilið.
Gubaidulina hlaut hin virtu sænsku Polar-verðlaun árið 2002. Björk Guðmundsdóttir hlaut sömu verðlaun árið 2010 en aðrar stjörnur á borð við Led Zeppelin, Patti Smith, Yo-Yo Ma og Arvo Pärt hafa hlotið þau á undanförnum árum.
Tónlist hennar hefur heyrst reglulega á tónleikum hér á landi, meðal annars í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
„Eitt mesta tónskáld 20. aldarinnar og mikill áhrifavaldur á mig. Ein magnaðasta tónlistarupplifun lífs míns var að heyra Offertorium fyrir fiðlu og hljómsveit flutt í Tallinn þegar ég var þar í námi,“ skrifar tónskáldið Páll Ragnar Pálsson í færslu á Facebook í kjölfar andlátsfregnarinnar.
Gubaidulina er sögð ein sjálfstæðasta rödd í tónlist samtímans í minningarorðum Berlínarfílharmóníunnar en sveitin fræga var í fréttum hér á landi í vikunni vegna ráðningar hins íslenska flautuleikara Stefáns Ragnars Höskuldssonar.