Tugir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Toskanahéraði á Ítalíu eftir að ár flæddu yfir bakka sína í kjölfar mikilla rigninga. Flæddu ár meðal annars yfir bakka sína og yfir götur í borgunum Písa og Flórens.
Slökkviliðið varaði við því að bílar hefðu farið á kaf í bænum Sesto Fiorentino, norður af Flórens, og voru íbúar beðnir um að halda sig frá jarðhæðum og kjöllurum.
„Hugur minn er hjá þeim sem verða fyrir áhrifum veðursins sem gengur yfir ýmis svæði Ítalíu og veldur borgurum alvarlegu tjóni og erfiðleikum,“ skrifaði Giorgia Meloni, forsætisráðherra, á samfélagsmiðla.
Rúmlega fimm hundruð slökkviliðsmenn hafa verið að störfum í Toskanahéraði og sinnt yfir þrjú hundruð útköllum.
Bernardo Gozzini frá veðurstofu Toskana sagði 60 millimetra af rigningu hafa fallið á svæðinu í kringum Sesto Fiorentino frá klukkan 6.00 um morguninn og fram að hádegi.
„Í Flórens, í marsmánuði, er heildarúrkoma venjulega 70 millimetrar,“ sagði Gozzini.
„Raunar er eins og mánaðar rigning hafi fallið á sex klukkustundum.“
Skólum, almenningsgörðum og kirkjugörðum í grennd við Flórens og Prato var lokað vegna veðursins og flóðahættu.
Þrír menn ásamt hundi voru hífðir upp með þyrlu í Gattaia, norðaustur af Flórens, og í Fucecchio í vestri var fjöldahjálparstöð opnuð í líkamsræktarstöð fyrir þá sem flýja þurftu heimili sín.
Alessio Mantellassi, borgarstjóri Empoli, sagði í Facebook-færslu að ástandið væri „verra en árið 2019“ þegar flóð varð í bænum.
Í Písa unnu hermenn að því að setja þunga sandpoka við hindrunarvegg sem átti að koma í veg fyrir að á flæddi yfir, en borgarstjórinn Michele Conti sagði ástandið „mjög flókið“ og hvatti íbúa til að halda sig heima fyrir.
Á Emilia Romagna-svæðinu, þar sem 17 létust í miklum flóðum fyrir tveimur árum, gáfu yfirvöld út rauða veðurviðvörun.