Hvíta húsið í Washington hefur beint því til bandaríska hersins að gera áætlun sem miðar að því að auka viðveru bandarískra hermanna í Panama. Tilgangurinn er að ná markmiði Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem vill „endurheimta“ Panamaskurðinn.
Þetta hefur bandaríska fréttastofan NBC eftir tveimur bandarískum embættismönnum sem þekkja til málsins.
Trump sagði í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í liðinni viku að það væri í þágu þjóðaröryggis að „endurheimta Panamaskurðinn.“
Ekki hafa fylgt nánari skýringar á því hvað felist nákvæmlega í orðum forsetans.
Heimildamenn NBC segja að svæðisstjórn Bandaríkjahers í suðri vinni nú að gerð ólíkra sviðsmynda, allt frá því að eiga nánara samstarf við öryggissveitir Panama til þess möguleika, sem þykir harla ólíklegur, að bandarískir hermenn taki Panamaskurðinn einfaldlega með valdi.
Embættismennirnir segja, hvað seinni valmöguleikann varðar, að það fari eftir því hversu mikið öryggissveitir Panama séu reiðubúnar til samstarfs við Bandaríkin.
Embættismennirnir segja enn fremur að það sé markmið ríkisstjórnar stjórnar Trumps að auka hernaðarviðveru Bandaríkjanna í Panama til að draga úr áhrifum kínverskra stjórnvalda þar, sérstaklega aðgangi Kínverja að sjálfum skurðinum.
Yfirvöld í Panama og Kína neita því að erlend ríki séu að hafa afskipti af skurðinum, sem er um 80 km langur. Fjallað er sérstaklega um hlutleysi skurðarins í stjórnarskrá Panama.
Kínverskir embættismenn hafa aftur á móti sakað Bandaríkin um að nota „þvinganir“ til að þrýsta á embættismenn í Panama að hindra flutning á kínverskum hjálpargögnum.
Heimildarmenn NBC segja að aðmírállinn Alvin Hosley, sem stýrir syðri svæðisstjórn hersins, hafi kynnt drög að áætlunum fyrir Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í vikunni.
Reiknað er með að Hegseth heimsæki Panama í næsta mánuði.