Maður á þrítugsaldri var í gær dæmdur til vistunar á viðeigandi stofnun fyrir að hafa síðla októbermánaðar myrt móður sína og skaðað yngri bróður sinn alvarlega í Vestnes í norska fylkinu Mæri og Raumsdal auk þess sem hann var dæmdur til að greiða systkinum sínum, að bróðurnum meðtöldum sem varð fyrir líkamstjóni, samtals 225.000 krónur í miska- og skaðabætur, jafnvirði rúmlega 2,8 milljóna íslenskra króna.
Var dómur Héraðsdóms Mæris og Raumsdals til samræmis því sem ákæruvaldið krafðist við rekstur málsins, en meðan á aðalmeðferð þess stóð viðurkenndi ákærði þau brot er honum var brigslað um. Taldi hann sig þó ekki bera sakarábyrgð á gjörðum sínum er einkum fólust í því að berja móður sína ítrekað með lampa.
Ákærði stríddi við alvarlegan andlegan heilsubrest og bjó í þjónustuíbúð með sólarhringsmönnun heilbrigðisstarfsfólks á Norðurmæri. Þegar hann heimsótti móður sína og bróður í Vestnes daginn örlagaríka, 21. október, hafði einn þeirra starfsmanna er að umönnun hans komu ekið honum þangað.
Við lögregluyfirheyrslur greindi maðurinn frá því að ásetningur hans hefði staðið til þess að myrða hvort tveggja mæðginanna, en hefði honum þorrið máttur áður en ódæðið var fullframið. Raddir í höfði hans hefðu boðið honum að myrða bróður sinn, eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá, en lætur þess ógetið hvort raddirnar hefðu nefnt móður mannsins.
Að sögn Roys Peders Kulbliks verjanda er dómurinn í samræmi við það sem vörnin hafði vænst, hvort tveggja hvað varðaði óútreiknanlegt hugarástand ákærða á verknaðarstundu og hvort rétt þætti að dæma vistun á stofnun í stað hefðbundinnar fangelsisrefsingar.
Þó mætti benda á að rétturinn tók enga afstöðu til spurningar um hver hefði borið ábyrgð á að skjólstæðingur hans fengi að heimsækja fjölskyldu sína umræddan dag. Sá hluti málsins yrði þó líkast til tekinn til skoðunar í rannsókn eftirlitsaðila, í þessu tilfelli fylkismannsins í Mæri og Raumsdal.
„Ég sé enga ástæðu til áfrýjunar, en sú ákvörðun er í höndum dæmda sjálfs,“ segir Kulblik við NRK.