Rússar sekir um stríðsglæpi: Mannshvörf og pyntingar

Úkraínskir hermenn sjást hér eiga stund á milli stríða. Fram …
Úkraínskir hermenn sjást hér eiga stund á milli stríða. Fram kemur í skýrslu SÞ að úkraínskir hermenn sem Rússar handsömuðu hafi verið myrtir. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa framið glæpi gegn mannkyninu með pyntingum og með því að láta fólk hverfa í Úkraínustríðinu. Þetta er hluti af kerfisbundinni árás á almenna borgara, að því er ný rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hefur leitt í ljós.

Skýrslan var birt á vefnum í vikunni en hún var unnin af óháðri alþjóðlegri rannsóknarnefnd SÞ um Úkraínu. Hún verður formlega kynnt fyrir mannréttindaráði SÞ næsta þriðjudag.

Nefndin segir að mannshvörfin og pyntingarnar séu í samræmi við stefnu rússneskra yfirvalda.

Óvanalega afdráttarlaus

Fram kemur í umfjöllun AFP að það þyki óvanalegt af hálfu rannsakenda SÞ að tjá sig með svona afdráttarlausum hætti.

Í skýrslunni segir að fjöldi almennra borgara hafi verið handtekinn á svæðum sem Rússar náðu á sitt vald. Margir voru síðan fluttir í fangabúðir á hernumdum svæðum Úkraínu eða í Rússlandi.

Þá segir í skýrslunni að Rússar hafi framið önnur brot og glæpi á meðan fólkið dvaldi í fangabúðunum.

„Margir hafa verið týndir í mánuði og ár, og sumir létust í haldi.“

Að auki hafa yfirvöld í Rússlandi látið kerfisbundið undir höfuð leggjast að veita upplýsingar um dvalarstað fanganna.

Rússar hafa látið fólk hverfa og stundað pyntingar með kerfisbundnum …
Rússar hafa látið fólk hverfa og stundað pyntingar með kerfisbundnum hætti að því er segir í skýrslu SÞ. Hér má sjá særða úkraínska hermenn sem voru hluti af fangaskiptum á milli landanna. AFP

Lögleysa

Í skýrslunni segir að Rússland hafi með einbeittum brotavilja búið svo um hnútana að lög og regla næðu ekki til þessara einstaklinga sem voru látnir hverfa.

Þá segir að stríðsfangar hafi verið beittir pyntingum eða látnir hverfa.

Í skýrslunni er fjallað um það hvernig pyntingum var beitt á kerfisbundinn máta til að komast yfir upplýsingar og ógna fólki.

Grimmilegustu aðferðirnar voru notaðar við yfirheyrslur, en rússnesk yfirvöld beittu einnig kynferðislegu ofbeldi gagnvart karlkyns föngum.

Stríðsfangar drepnir

Nefndin rannsakaði einnig fjölmörg atvik þar sem rússneskir hermenn drápu eða særðu úkraínska hermenn sem voru teknir til fanga. Það telst vera stríðsglæpur.

„Vitnisburður hermanna sem flúðu rússneska herinn bendir til þess að það sé stefna að taka ekki fanga heldur drepa þá þess í stað,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert