Rússi dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi

Maðurinn tók þátt í árás á úkraínska hermenn árið 2014.
Maðurinn tók þátt í árás á úkraínska hermenn árið 2014. AFP

Finnskur dómstóll hefur dæmt rússneskan nýnasista í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi sem hann framdi í Úkraínu árið 2014. Hann afmyndaði meðal annars særðan úkraínskan hermann með hnífi.

Héraðsdómur í Helsinki komst að þeirri niðurstöðu að Vojislav Torden, sem var yfirmaður rússnesku nýnasistaherdeildarinnar Rusich, væri sekur um „fjóra mismunandi stríðsglæpi“ sem framdir voru í Luhansk-héraði í austurhluta Úkraínu.

Saksóknari hafði ákært Torden fyrir fimm stríðsglæpi sem leiddu til dauða 22 úkraínskra hermanna.

Aðalákærunni vísað frá

Dómstóllinn vísaði frá aðalákærunni gegn Torden.

Ákæruvaldið hélt því fram að að Rusich-sveitirnar hefðu setið fyrir bílalest sem flutti úkraínska hermenn 5. september 2014. En dómstóllinn sagði að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að Rusich og Torden bæru ábyrgð á launsátrinu.

„Ekki hefur verið hægt að álykta út frá sönnunargögnunum [...] að Rusich-eining eða hópurinn hafi sérstaklega borið ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd launsátursins og íkveikjuárásarinnar í öllum atriðum,“ sagði dómstóllinn.

Drap og limlesti hermenn

Hins vegar var Torden fundinn sekur um að hafa stjórnað aðgerðum Rusich-hermanna á vettvangi í kjölfar árásarinnar og að hafa drepið einn særðan hermann.

Hann var einnig fundinn sekur um að hafa heimilað mönnum að limlesta Ivan Issyk með því að skera tákn hópsins, kolovrat, í kinn hans.

Margir hópar öfgaþjóðernissinna og nýnasistahópa í Rússlandi og Austur-Evrópu nota táknið. Issyk lést síðan af sárum sínum.

Torden var einnig fundinn sekur um að hafa tekið niðrandi ljósmyndir af föllnum hermanni á vettvangi og birt þær á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert