Skipstjóri Solong-flutningaskipsins hefur verið ákærður af lögreglunni í Bretlandi fyrir manndráp af gáleysi. Skipstjórinn er frá Rússlandi en Solong sigldi á skipið Stena Immaculate á Norðursjó á mánudag.
Bæði skip stóðu í ljósum logum í meira en sólarhring í kjölfarið. Einn maður lést, en 36 mönnum var bjargað af skipunum.
Maðurinn sem er ákærður heitir Vladimír Mótín og er 59 ára gamall. Hann er frá Sankti Pétursborg í Rússlandi.
Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og kemur fyrir dóm í Hull á morgun, laugardag.
Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að strandgæsla Bretlands hafi leitað ítarlega í Norðursjó en ekki fundið þann eina sem ekki náðist að bjarga á mánudag. Er nú gengið út frá því að hann hafi farist.
Maðurinn hét Mark Angelo Pernia og var 38 ára gamall. Hann var frá Filippseyjum.