Tæplega tíu milljónir króna söfnuðust í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) fyrir íbúa Gaza. Söfnunin hófst í janúar og er nú lokið.
„Enn og aftur sýna landsmenn að þeir eru til staðar fyrir fólk í mikilli neyð,“ segir Sólrún María Ólafsdóttir, teymisstjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum, í tilkynningu sem RKÍ hefur sent frá sér.
Þar segir jafnframt að söfnunin hafi verið svar við neyðarbeiðni palestínska Rauða hálfmánans sem sé landsfélag Rauða kross hreyfingarinnar rétt eins og Rauði krossinn á Íslandi. Mun féð nýtast til vel skilgreindra verkefna sem miða fyrst og fremst að því að reyna að tryggja aðgang fólks að heilsugæslu, mat, hreinu vatni og skjóli.
„Markmiðið er að veita íbúum Gasa lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð,“ segir Sólrún í tilkynningunni.
Um tvær milljónir þeirra eru á vergangi og yfir 90 prósent af öllu íbúðarhúsnæði á Gasa hefur skemmst eða eyðilagst. Þá er heilbrigðisþjónusta í lamasessi.
Palestínski Rauði hálfmáninn gegnir lykilhlutverki í því að veita aðstoð á Gasa sem og við að bregðast við þörfum á Vesturbakkanum. Þá er stuðningur einnig veittur fólki sem neyðst hefur til að flýja Gasa til nágrannalanda.