Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyggst ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um tillögu Bandaríkjanna að 30 daga vopnahléi í stríðinu við Úkraínu, en ekki þó fyrr en Steve Witkoff, fulltrúi samninganefndar Bandaríkjanna, hefur komið hugleiðingum Pútíns á framfæri við Trump.
Witkoff fundaði með Pútín í gær og kynnti fyrir honum tillögur Bandaríkjanna að vopnahléssamkomulagi sem Úkraína samþykkti á þriðjudag.
„Þegar herra Witkoff hefur kynnt upplýsingarnar fyrir Trump forseta þá munum við ákveða tímasetningu fundar forsetanna,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar.
Þá sagði hann ástæðu fyrir „hóflegri bjartsýni“.
„Það er enn langt í land en forsetinn hefur engu að síður samsamað sig afstöðu Trumps,“ sagði Peskov.
Pútín sagði í gær að hann styddi hugmyndina um vopnahlé á milli Rússlands og Úkraínu en að hann efaðist mjög um framkvæmdina. Vildi hann ræða það við Trump.
Rússar tilkynntu í morgun að hersveitir þeirra hefðu tekið yfir þorpið Gontsjarovka í Kursk-héraðinu sem áður var á valdi úkraínskra hermanna.
Í tilkynningu rússneska varnarmálaráðuneytisins segir að Rússar hafi „frelsað“ þorpið í gagnárás. Gontsjarovka er skammt frá bænum Súdstja sem Rússar tóku yfir í gær.
Evrópusambandið hefur framlegt refsiaðgerðir gegn ríflega 2.400 einstaklingum vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu.
Ákvörðunin var tekin í morgun eftir að Ungverjar gáfu sig loks. Ungversk stjórnvöld féllust loksins á að framlengja aðgerðirnar um sex mánuði eftir að fjórir einstaklingar voru fjarlægðir af þeim lista sem aðgerðirnar beinast gegn.