„Mun halda áfram að draga stríðið á langinn“

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ítrekar þá trú sína að þögn Rússa um 30 daga vopnhlé, sem Bandaríkjamenn hafa lagt til og Úkraínumenn hafa samþykkt, sýni að Vladimír Pútin Rússlandsforseti muni halda áfram að draga stríði á langinn.

Selenskí tók þátt í fjarfundi leiðtoga Evrópu og NATO í dag þar sem málefni Úkraínu voru til umræðu.

„Vopnahlé hefði þegar getað átt sér stað, en Rússar gera allt til að koma í veg fyrir það. Til að stöðva þetta stríð þarf virkan þrýsting, ekki bara viðræður,“ segir Selenskí í færslu á samfélagmiðlinum X.

Selenskí segir að heimurinn verði að skilja að Rússland sé eina hindrunin sem komi  í veg fyrir frið. Hann segir að Pútín sé að ljúga að öllum um ástandið í Kúrsk og vopnahléssamninginn.

Úkraínskir hermenn náðu yfirráðum í Kúrsk-héraði í Rússlandi í skyndiárást síðasta sumar en rússneskar herveitir hafa hægt og rólega verið að endurheimta svæði.

Pútín hefur haldið því fram að úkraínskir ​​hermenn séu nú umkringdir rússneskum hersveitum á svæðinu en Selenskí segir að engar sannanir séu fyrir því.

„Sannleikurinn er sá að Pútín hefur þegar dregið stríðið á langinn í næstum viku eftir viðræðurnar í Sádi-Arabíu. Og hann mun halda áfram að draga það á langinn,“ segir Selenskí.

Hann segir að Rússar vilji sterkari hernaðarlegri stöðu áður en þeir skuldbindi sig til vopnahlés í stríðinu.

„Þeir vilja sterkari stöðu fyrir vopnahlé og vilja bæta stöðu sína á vígvellinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert